Púff

Svo ég haldi aðeins áfram ...

Atli á verkstæðinu sagðist viss um að bílaumboðið myndi borga dráttarbíl svo við hringdum og losnuðum við að draga bílinn sjálfar.

Morguninn var sveittur og erfiður. Hrund ætlaði sér í skólann og skellti sér í sturtu. Ég fór inn á bað til að tala við hana og kom að henni þar sem hún hékk utan í sturtuveggnum.'Það er að líða yfir mig' stundi hún náhvít í framan. Ég hellti í hana hreinum appelsínusafa til að ná upp blóðskykrinum og svo baksaði hún (eða er það bagsa?) dágóða stund við að koma sér í föt. Ég hafði sem betur fer tekið þá ákvörðun að hætta mér ekki í sturtu.

Rakel var hress og bollaði mig með bolluvendinum sínum. Ég rauk svo með hana í leikskólann á snjóþotunni og var löðursveitt og magnvana þegar ég kom heim. Hrund fór og lét kallana á dráttarbílnum fá bíllykilinn, játaði sig sigraða og lagðist fyrir. Ég reyndi eftir fremsta megni að prófarkalesa spænskufyrirlesturinn minn og náði að byrja á úrdrættinum fyrir hina nemendurna. Svo gat ég ekki meir. Skreið upp í sófa og glápti aðeins á video og fór því næst upp í rúm og svaf af mér daginn með Hrund.

Við skreiddumst svo á fætur og náðum í molann og fórum á læknavaktina. Vorum vissar um að við værum komnar með streptókokka. Sem reyndist rétt. Og reyndar Rakel líka. Sem betur fer er hún ekkert lasin og pensilínið kemur líklega í veg fyrir það. Hún verður samt að vera heima á morgun þar sem hún smitar enn þá.

Við drusluðumst og náðum í bílinn. Rafgeymirinn var orðinn lélegur svo nýr var settur í sem er alveg fyrirtak. Þetta gerðist allt á hárréttum tíma. Bílaumboðið borgar svo brúsann.

Ég fór og keypti hamborgara handa okkur Rakel þar sem ég get ekki fyrir mitt litla líf hugsað, hvað þá matreitt. Hrund hélt sig inn í stofu á meðan við borðuðum og reyndi að þræla í sig appelsínu. Hún er svo hræðilega klígjugjörn svona lasin og með viðurstyggilega hálsbólgu. Hún skilur ekkert í því að ég geti borðað. Hálskirtlarnir á mér eru helmingi bólgnari en hennar, það blæðir úr þeim og þeir lafa niður í kokið. Jammí. Ég sagði henni að lystarleysi hrjáði mig sjaldan, því miður.

Ein af ömmunum reddaði okkur grímubúning, barnið verður læknir og er það bara gott og blessað. Sá ekki fyrir mér að við hefðum orku eða tíma til að vesenast í þessu.

Er að hugsa um að leggjast í fangið á Sprundinni og horfa á fréttir. Á eftir verð ég að sjálfsögðu að framleiða bollur fyrir barnið.

Púff, hvað allt vex mér í augum. Og ég sem var frekar löt í síðustu viku og veik í þessari hef ansi mikið að vinna upp í skólanum.

Best ég taki einn dag í einu. 


Úff

Klukkan er ekki orðin hálf átta og ég ætti að vera að njóta þess að vera sofandi. Ég vaknaði hins vegar klukkan sex, hafði þá verið að vakna alla nóttina á hálftíma fresti, og klukkan sjö gafst ég upp og fór á fætur. Orsökin mun vera svaðaleg hálsbólga og almennur slappleiki.

Það mætti kannski segja að ég væri eins og drullutuska. Umsjónarkennarinn minn í 9. bekk spurði einmitt eitt sinn þáverandi bestu vinkonu mína af hverju ég væri svona eins og drullutuska. Hann var viss um að ég væri í dópi og rugli og útlitið fannst honum eftir því, allavega þennan tiltekna dag. Vinkonan hrækti því á hann að ég hefði verið að keppa í frjálsum íþróttum alla helgina, álagið hefði verið mikið og lítið um svefn. Það skal tekið fram að þessi athugasemd var ekkert einsdæmi og ég ekki eina skotmarkið. Karlinn var afskaplega sérstakur. Ég og vinkonan tókum hann á teppið fyrir útskrift í 10. bekk. Og að sjálfsögðu varð allt brjálað og voða mikið mál út af því.

Mamma segir að ég hafi verið fínn unglingur. Ég minnist þess að ég hafi verið ansi uppreisnargjörn, kjaftfor og þver. Ég hins vegar gætti systkina minna og hjálpaði til á heimilinu óumbeðin mitt í allri þvermóðskunni svo ég hef varla verið alslæm. Ekki má gleyma því að ég æfði íþróttir og spilaði á hljóðfæri. Hurru, kannski ég hafi verið fyrirmyndarunglingur. Nei, samt ekki ...

Sumst. Helgin fór mest í veikindi og vesen. Það sem Hrund hélt að væri vöðvabólga og bakverkur á föstudagskvöldi reyndust vera beinverkir og byrjun á flensu. Hún var samtals vakandi í tvo tíma á laugardaginn en lá annars dúðuð undir sæng með sinn 40 stiga hita. Hún vaknaði svo á hádegi í gær og var ögn skárri. Þá var ég einmitt farin að finna fyrir hálsbólgu og höfuðverk. Dreif mig í Bónus svo því væri aflokið áður en ég legðist líka. Sem ég ætla heim á nýja bílnum er hann alveg dauður. Það var hægt að kveikja ljósin og einnig var ljós í mælaborðinu svo við vorum ekki vissar um hvort hann væri rafmagnslaus þótt allt annað benti til þess. Til þess að gera langa og leiðinlega sögu stutt þurfti ég að ræsa Hrund og fleira lið. Startkaplar virkuðu ekki og við fundum engan krók á bílnum svo ekki gátum við dregið hann á verkstæði. Eigum einmitt tíma á verkstæði í dag, á að lagfæra áðurnefnda löm á hurð.

Manualinn/handbólkin var heima þar sem við höfðum verið að glugga í hana. Þegar við komum heim var flett og kom í ljós að krókar áttu að vera einhver staðar í bílnum. Hrund fór aftur út um kvöldið og tók allt sundur í skottinu. Fann loks krók inn í dekkinu. Við ætlum því að reyna að draga bílinn á verkstæðið á eftir þegar Hrund er í gati í skólanum.

Eins gott að bílaumboðið borgi þetta. Við vorum ekki að kaupa okkur nýjan bíl til þess að lenda í þessu. ÓGESSLEGA pirrandi.

Núna er ég búin með heita vatnið mitt með sítrónunni og hunanginu. Það hjálpað lítið. Ég er enn gráti næst þegar ég kyngi. Er oft búin að skoða upp í mig í leit að hvítum deplum, bólgan er það mikil að ég gæti verið með streptókokka. Sem er helvíti.

Verð að fara og draga stelpurnar mínar á lappir. Það er svo gaman að vekja þær. Eða þannig. Úff. 


Laugardagsþankar

Varúð: Í þessari færslu nota ég hin ýmsu blótsyrði. Ekki fyrir viðkæma. 

 

 Ég og Hrund fórum á djammið í gær og skemmtum okkur konunglega. Það sem mér finnst leiðinlegt við djamm eru leigubílaraðir og ÓGEÐSLEGIR GAURAR.

Er ekki bara hægt að láta mann í fock**** friði?

Nei, klárlega ekki.

Ég get ekki fengið að dansa í friði án þess að vera með einhverja graða tittlinga utan í mér. Það þýðir ekkert að segja að maður sé lesbía, trúlofaður og upptekinn við að dansa VIÐ KONUNA SÍNA.

Flestum þessum perrum finnst bara geggjað að fylgjast með okkur Hrund. Eins og við séum einhverjir helvítis sýningargripir, leikarar í persónulegri klámmynd eða draumórum þeirra. Mér finnst þetta óþolandi.  Ég heimta það að borin sé virðing fyrir mér, konunni minni og okkar sambandi.

Í gær var einmitt einhver skítur sem fylgdi mér eins og skugginn. Stelpurnar reyndu að olnboga hann í burtu og ég reyndi oft að útskýra fyrir honum ég hefði minna en engan áhuga á honum. Hann hlustaði ekki og fannst bara voða hot að horfa á okkur Hrund dansa.

Einhvern veginn tókst honum (sennilega vegna áfengis í blóði mínu) að þröngva upp á mig kossi. Þetta gerðist svo snöggt að eitt andartak hélt ég að þetta væri einasta konan mín. Þegar hann tróð tunguni upp í munninn á mér áttaði ég mig og hrinti honum óblíðlega í burtu.

Ég var bara brjáluð. Mest inn í mér. Gekk ekki berserksgang eða neitt þannig. Helvítis dónaskapur er þetta.

Á leiðinni út af staðnum sat hann líka fyrir mér. Hélt hann ætlaði að rífa af mér fötin í von um að fá mig til að vera.

Það versta er að yfirleitt þegar ég fer út að skemmt mér lendi ég í svona gaurum. Oft hitti ég líka frábæra stráka. Eins og Tryggva besta frænda í gær. Við knúsuðumst og sögðum hvort öðru hvað okkur fyndist hitt fyndið og skemmtilegt og hvað okkur þótti vænt um hvort annað.

Allavega. Hegðun svona skíthæla er ekki réttlætanleg. Ég þoli ekki svona yfirgang. Og ég dansa ekki við og kyssi konuna mína í þeim tilgangi einum að uppfylla einhverja draumóra hjá karlmönnum.

Nei þýðir nei, fjandinn hafi það.

Ég neita að láta koma svona fram við mig. 


Nístingskuldi

Mikið asskoti er kallt. Ég er frekar heitfeng og get aldrei verið í meiru en bómullarbol undir kápunni, get því miður ekki notað þykku, flottu peysurnar mínar án þess að svitinn leki af mér. Undanfarna daga hefur mér hins vegar verið hrollkalt. Á morgun ætla ég í ullarermarnar mínar undir kápuna. Þær eru skotheldar og hannaðar fyrir íslenska veðráttu.

Rakel hefur þróað með sér tvöfalda efrivör sökum mikils kulda. Hún er með svaðalegan varaþurrk sem skánar ekki við það að hún sleikir endalaust út um. Hún er líka með rauðan þurrkublett í sitthvorri kinn og er eins og lítill snjóengill.

'Takk' sagði hún þegar ég smellti á hana kossi eftir að hafa sótt hana í leikskólann. 'Takk fyrir hvað?' spurði ég. 'Fyrir að kyssa mig' sagði molinn. Það mætti halda að maður gerði þetta svo sjaldan að þörf væri á að þakka manni sérstaklega fyrir atlotin. Annars held ég að hún sé bara svona hrikalega vel upp alin. Þetta er einhvers konar reflexi .... Takk 

Ég keypti snjóþotu handa henni á sunnudaginn og nú fær hún far með henni  á leikskólann og heim aftur. Þvílik gleði, þvílik ánægja. Það þarf ekki mikið til þess að gleðja lítil barnshjörtu. Svo skríkir hún af kátinu og hlær sínum dillandi hlátri, rauðklædd á grænni snjóþotu. Hamingjusama krílið mitt.

Annars er ég frekar andlaus þessa dagana. Það gerir hækkandi sól eins og áður sagði (í síðustu færslu). En það er kannski ágætis tilbreyting að hafa færslurnar stuttar.

Hef líka verið að skoða hin ýmsu blogg. Það eru allir svo sjúklega fyndnir eitthvað. Og ég sem tek mig og lífið svo alvarlega. Þarf að vinna í húmornum. Ég man þá daga þegar ég var hryllilega fyndin.

Hryllilega fyndin. 


Þannig er nú það

Í örstuttu máli var helgin góð. Hrund var í skólanum frá níu til þrjú á laugardaginn en við Rakel skelltum okkur í íþróttaskólann og sprelluðum, því næst drukkum við kaffi hjá ömmu Rósu/langömmu og hittum svo Hrund hjá tengdó þar sem við vorum í góðu yfirlæti fram að háttatími Rakelar.

Á sunnudaginn tókum við því rólega þar til tími var kominn til að fara í leikhúsið að sjá Skilaboðaskjóðuna. Mamma og Einsi bró komu með og má með sanni segja að við höfum öll skemmt okkur konunglega. Rakel fylgdist vel með öllu og var mjög upprifin í lok sýningar. Vorum svo boðnar í læri til mömmu sem við þáðum.

Svo er ekkert meira að segja. Venjulegt fólk fær skammdegisþunglyndi í nóvember. Mér finnst ég hins vegar oft mara í hálfu kafi frá miðjum janúar og fram í febrúar.

Ég sem sagt á ekki í erfiðleikum með skammdegið heldur aukna birtu. Hún sker mig í augun og neyðir mig til að horfast í augu við sjálfa mig.

Dagarnir lengjast, hrista af sér slenið og myrkrið í leiðinni. Stundum finnst mér allt þetta myrkur taka sér bólfestu í mér.

Það er tími til kominn fyrir mig að hrista af mér slenið og myrkrið í leiðinni. Ég er að fara í próf á fimmtudaginn.

Komasodíana 


Fimmtudagur

Dettur ekki önnur fyrirsögn í hug ...

Ég fer allt of seint að sofa. Er alltaf að drepast úr þreytu milli sex og tíu á kvöldin en eftir það kemst ég yfir þreytuna og vaki of lengi. Trufla Hrund við húsgagnapælingar, tek aðeins til, athuga hvort allt er tilbúið fyrir morgundaginn og fer svo upp í rúm og les eða leysi krossgátu þegar ég ætti að vera sofnuð. Oft þarf ég svo líka að fara fram úr og pissa og minna Hrund á eitthvað eða segja henni eitthvað sem getur ekki beðið til morguns. Þegar við förum á sama tíma að sofa þarf ég líka alltaf að lesa. Sprundin er svo sem vön því að sofna í skininu frá lampanum mínu, setur annan handleggin yfir augun og hinn á magann á mér og sefur svo rjómahvít og mjúk.

Afleiðingin: Á erfitt með að halda mér vakandi í tíma. Sérstaklega klukkan átta á morgnana þegar kennarinn heldur fyrirlestur og notar glærur sér til stuðnings. Sem þýðir að ljósið er slökkt svo við sjáum betur á tjaldið. Pynting. Svona var þetta einmitt í morgun. Fyrirlesturinn var hins vegar mjög áhugaverður og ég hélt mér vakandi með því að glósa eins og brjálæðingur á spænsku. Rölti svo yfir í Árnagarð, fékk mér kaffi og drakk það standandi í kápunni með nýþungu skólatöskuna á bakinu á meðan ég las í Mogganum að Heath Ledger væri dáinn.

Sit núna í tölvuverinu og líkt og síðastliðinn fimmtudag blogga ég í stað þess að læra. Var reyndar svo dugleg á þriðjudagskvöldið að ég kláraði uppkastið að fyrirlestrinum mínum um jarðskjálftann í höfuðborg Nicaragua sem ég á að flytja í Menningu og sögu rómönsku Ameríku. Djöfull er ég ógesslega dugleg. Nú hef ég nægan tíma þar til í mars (þegar ég á að flytja hann) og get búið til eitthvað kreisí powerpoint show og ég veit ekki hvað.

Sökum þessa var ég róleg yfir öllum lærdómi í gær. Rakel hefur verið heima í þessari viku og í gær var Hrund með hana. Þegar ég var búinn í skólanum í hádeginu fór ég og keypti allt til að búa til dýrindis kjúklingasallat, leigði Skógarlíf og keypti frostpinna með alvöruávaxtasafaogánaukaefnaaðsjálfsögðu. Kom því færandi hendi heim, skellt mér í flísnáttkjólinn minn, Hrund til samlætis, og svo borðuðum við og sátum svo allar þrjár undir sæng og gláptum. Náðum því næst í bílinn úr viðgerð. Barnið var orðið brjálað af inniveru og næstum klifraði upp veggina af spenningi þegar við sögðum henni að við þyrftum aðeins að skreppa út.

Ég hafði svo grautarlummur/pönnkökur í kvöldmatinn. Er mjög stolt af mér yfir að hafa getað búið til deigið án uppskriftar. Hefur lengi dreymt um það, færni mín í bakstri er mun minni en í eldamennsku. Skellti bara afgang af grjóngraut í skál, slatta af spelti, einu hamingjusömu eggi, mjólk, lyftidufti og agavesýrópi. Úr urðu ljúffengar pönnukökur. Við borðuðum þær með smjöri, sultu og osti og átum í nær algjörri þögn og sælu.

Sem betur fer er Rakel orðin frísk og fór í leikskólann í dag.

Helgin framundan. Rakel fer, ef guð lofar og allt gengur vel eins og amma segir, í íþróttaskólann á laugardaginn og er að sjálfsögðu mjög spennt. Ég á mér skóla, mamma hennar á sér skóla og nú á hún skóla. Talar stanslaust um að hún sé alveg bráðum að fara í skólann 'sinn'. Við eigum svo miða á Skilaboðaskjóðuna á sunnudaginn og mun það vera fyrsta leikhúsferð Rakelar.

Nú á maður að skrá hvenær krakkinn verður í sumarfríi í leikskólanum. Ég veit ekki einu sinni hvar ég verð að vinna. Þvílík pressa. Veit fólk ekki hvernig ég er. Ég á ekki eftir að geta sofið vegna sumarfríspælinga í nótt.

Ég er með einhverja illsku í auganu. Fór á læknavaktina í gær og fékk sótthreinsandi krem. Held ég hafi sett fullmikið af því í augað. Skömmu eftir smurningu hafði kremið borað sér leið inn um augnkrókana, niður nefgönginn og niður í kok svo ég var farin að éta kremið. Það var eigi bragðgott. Í dag er mér illt í maganaum.

Vitiði hvað er best í heimi. Að geta verið ógesslega pirraður og ósanngjarn og fúll og mikil brussa við fjölskyldumeðlimi og komið svo og knúsað þá á eftir og beðist fyrirgefningar. Það er yndislegt að mega missa sig án þess að manni sé refsað, að konan mín þekki mig það vel að hún leyfi mér að tuða og kyssir mig svo bara á ennið að loknu nöldurkasti. Vissan um að vera elskaður þrátt fyrir veikleikana, eða einmitt vegna þeirra, er yndislegt.

Augnaráð Hrundar er sjaldan jafnt hlýlegt og milt og þegar ég er eitthvað að brussast á kvöldin. Við kannski sitjum í sófanum og eins og alltaf þarf ég að standa upp tíu sinni yfir hverjum sjónvarpsþætti. Yfirleitt tekst mér að reka tánna í, draga til í náttkjólnum, flækja mig í teppinu og hella niður. Hrund fylgist með mér hýr á svip. ' Þú elskar mig' á ég til að segja óörugg þegar ég tek eftir að hún er að horfa á mig. 'þótt ég sé brussa'. 'Einmitt þess vegna' segir Sprundin og strýkur mér um vangann. 

'Ertu að fara að hitta einhvern sætan lækni' spurði Hrund í gær þegar ég var á leið út úr dyrunum og á læknavaktina. Fannst ekki eðlilegt að ég hefði sett á mig vellyktandi fyrir brottför. 'Ertu kannski að fara að hitta viðhaldið'. Ég sagði henni að þá myndi ég líklega vera fínni og kyssti hana bless. 'Þú ert örugglega í fínu fötunum innan undir' kallaði hún á eftir mér niður stigann. Ég veit nú ekki hvenær ég ætti að koma viðhaldi inn í þéttskipað dagskipulag. Enda var hún nú að grínast.

Henni ferst nú. Á í ástarsambandi við gamla bílinn okkar. Hefur aldrei viljað selja hann, sama hvað það kostar, og finnst hann einfaldlega besti bíll í heimi. Nýi bíllinn jafnast ekkert á við þann gamla. Þetta jaðra við að vera svik. Bara verið að halda við bílinn. Já, já. Á kvöldin stend ég úti á náttsloppnum og hugga nýja bílinn.

Djók. Hrund segist hafa alið gamla bílinn upp og greinilegt er að á milli þeirra er strengur. Vírstrengur. Það verður þó að segjast að nýi bíllin kemur sterkt inn.

Annars argaði barnið á ömmu Öllu sína í gærmorgun sem passaði hana smástund á meðan við Hrund vorum báðar í skólanum. Þær voru að spila og eftir að hafa lesið leiðbeiningar sagðist mamma vera með reglurnar á hreinu. Þegar hún byrjaði var hún fljótt stoppuð af, af yfir sig hneiksluðu barninu: 'Mammí gerir aaaaaldrei svona!!!'. Kom í ljós að hægt var að spila tvær útgáfur og hafði mamma dirfst að spila þá sem ég er ekki vön að spila við rauðhaus. Voðaleg áhrif hefur maður á litla molann. Hélt henni fyndist ég mest pirrandi með allan minn aga en kannski barnið meðtaki hvert orð sem ég segi.

Kannski ég sé góð mamma.

 


Leirað

Rakelitan situr við litla borðið sitt sem ég flutti inn í stofu fyrir hana og er leira. Er með Barbapabbasvuntu, úfið hár og hor. Hlustar á Pétur og úlfinn sem hún fær ekki nóg af þessa dagana og mér finnst frábært. Stelpan er lasin og því enginn leikskóli í dag. Hún unir sér vel, dýrkar að leira.

Þegar pabbi hennar kom að sækja hana á föstudaginn vildi hún endilega taka leirinn með sér. Leirinn 'minn'. Hún heldur að ég eigi hann þar sem hún þarf að fá leyfi til að leika sér með hann. Og það er algjör óþarfi að vera eitthvað að spyrja mömmu. Barnið virðist vera með það alveg á hreinu að ég ræð öllu. Og mjög erfitt að breyta þeirri skoðun hennar. Ég vil alls ekkert ráða öllu. Kannski ræð ég öllu. Ó lordí. Þá er það bara af því að ég er of óþolinmóð til að bíða eftir að sumir taki ábyrgð ... Ég er óþolinmóðasta manneskja í heimi.

Já, Rakel vaknaði sífellt aðfarnótt föstudagsins, hóstaði holum hósta og grét sárt. Endaði með því að ég sat með böggulinn inn í stofu og strauk bringuna og bíaði. Hún var svo hjá mér til tíu á föstudagsmorguninn en þá kom Hrund úr skólanum til að skipta við mig, ég fór í tíma og svo voru aftur vaktaskipti klukkan tólf þegar ég kom heim og Hrund fór aftur. Robbi kom svo að sækja hana seinnipartinn eins og áður sagði og ég hvatti hann til að fara með Rakel á læknavaktina, sem hann og gerði, þar sem streptókokkar hafa verið að ganga á leikskólanum. Sem betur fer var hún bara með flensu.

Þegar hún kom heim frá honum í gær var hún með risa kýli eða kúlu bak við eyrað. Mjög skrítið. Robbi var nýbúinn að taka eftir þessu en við Hrund ákváðum að fara með hana upp á slysó til öryggis. Eftir rúma tveggja tíma bið fengum við að vita að þetta væri bara svona rosalega bólginn eitill og við þyrftum bara að bíða og sjá hvort illska kæmist í þetta. Jæja, gott að vita.

Ákváðum að hafa hana heima í dag líka þar sem hún hóstar svo mikið og er svo svakalega kvefuð. Það var líka mjög notalegt að vakna við hana í morgun. Heyrði smá snökt og tipl í litlum fótum. Svo stóð hún í flónelsnáttfötunum og með klút um hálsinn inn á svefnherbergisgólfi hjá mér og teygði sig. Sagðist hafa meitt sig í mallanum. Skreið upp í mömmuból sem var tómt enda mamman í skólanum. Lá svo grafkyrr á meðan ég strauk hana alla. Handleggina og hálsakotið, yfir hárið og bak við eyrun. Þorði greinilega ekki að hreyfa sig af ótta við að ég myndi hætta. Rak svo allt í einu rassinn framan í mig og heimtaði að ég stryki bakið líka. Og hinn handlegginn. Og mallann. Svo vildi hún strjúka mér og það var alveg hreint guðdómlegt. Lét hana strjúka yfir mjóbakið þar sem brjósklosið angrar mig stanslaust og það var svo miklu betra á eftir. Það er lækningamáttur í barnahöndum. 

Mig langar svo að gefa út smásagnasafn. Eða reyndar myndu það vera örsögur samkvæmt minni skilgreiningu. Á nokkrar til í fórum mínum. Á hins vegar miklu fleiri ljóð. Kannski ætti ég að gefa út aðra ljóðabók. Ég og Sprundin vorum að keyra í gær og lentum fyrir aftan bíl sem hafði RYK á númerplötunni. Alveg eins og ljóðabókin okkar Inam og Önnu (Fyrir þá sem ekki vita er titillinn gerður úr eftirnöfnunum, Rivera, Yasin, Kristjánsdóttir. Við gáfum hana út þegar við vorum 18 ára og hún er flottust í heimi. Mamma var umbinn okkar og við enduðum tvisvar í útvarpinu og einu sinni í sjónvarpi og einnig í viðtali í Veru. Ég er ótrúlega stolt af þessu og monta mig því af þessu hér. Mitt blogg!!!). Er þetta ekki eitthvað tákn?

Mér sýnist Rakel vera að taka til. Ætla að hjálpa henni og finna eitthvað annað handa henni að gera.

Hvað segið þið. Ljóðabók? Örsögur? Eða gleyma þessu og einbeita mér að námi og skóla. Hef svo sem engann tíma fyrir þetta. En það má láta sig dreyma ... 


Kósý

Það er nú ansi kósý veður. Mammar er örg yfir skítaveðráttu. Ég er hins vegar ekki svo ósátt. Finnst fínt að losna aðeins við rigningu. Get náð í barn á leikskólann ekki skítahaug og barnið er meira að segja ennþá í sömu fötunum, ekki aukafötum (eins og þegar það rignir, krakkinn liggur í pollunum, ég er viss um að hún drekkur vatnið úr þeim líka). Svo er yndislegt að vera úti ef maður er rétt klæddur. Tala nú ekki um hversu notalegt það er að keyra um á kagganum og hlusta á tónlist. Ljúfa líf, ljúfa líf, du, du, du (ég hlusta nú samt ekki á þetta lag með Páli Óskari, helst hlusta ég á salsa sem pabbi hefur sent mér).

Var rétt í þessu að prenta út stundaskrána mína svo ég geti fest hana á ísskápinn heima. Sá þá að búið var að bæta við verkefnatímum í forna málinu á mánudögum. ÞAÐ VAR EINI DAGURINN SEM ÉG VAR EKKI Í SKÓLANUM. OOOOHHHH. Og hann er klukkan þrjú. Ég næ ekkert að koma hingað í tíma og taka svo strætó heim og vera komin fyrir hálf fimm að sækja Rakel á leikskólann.

 Nei, bíddu. Þetta er ennþá verra. Þetta er eini dagurinn í vikunni sem Hrund er búin snemma svo við ætluðum að nýta tækifærið og fara í fyrra fallinu í ræktina. Þá er ekki svona mikið stress að borða kvöldmat og baða Rakel og koma henni í rúmið þegar við komum heim. OOOHHHH. Á síðustu önn var ég alltaf í spæsku á þeim tíma sem verkefnatímarnir voru. Skrópaði einu sinni í spænsku til að sjá hvort ég væri að missa af einhverju. Svo var nú ekki. Sjáum hvað setur. Þoli ekki svona óþolandi truflanir á mínum heilugu plönum.

Annað skemmtilegra. Njótum þess munaðar við hjónkyrnur að vera á tveimur bílum þessa vikuna. Tengdó og co. ætla að taka gamla skrjóðinn svo það liggur ekkert þannig á að koma honum til skila. Við höfum nátla engan veginn efni á því að borga bensín á tvo bíla svo við ætlum að fara með bílinn til þeirra í næstu viku. Ætlum fyrst að fara með nýja á verkstæði og láta smyrja hann og skipta um tímareim. Getum þá verið á hinum á meðan. Þvílíkur lúxus. Vona bara að bensínið verði ekki búið á honum fyrir þann tíma ...

Við Sprundin fórum í heimsókn á Bákarborg í gær (leikskólann hennar Rakelar). Það er foreldravika svo þeir mega koma og fylgjast með börnunum í leik og starfi. Við vildum endilega sjá Rakelituna í útiveru svo við vorum mættar rétt um tvö. Hún var í einu horni garðsins. Eina rauðklædda stelpan í fimm manna strákahóp. Hún dró stóðið á eftir sér til að sýna okkur. Þau stóðu svo öll í hæfilegri fjarlægð og mældu okkur út. Strákarnir virtust vera með á hreinu hverjar við værum. 'Þetta er mamma þín og þetta er mammí þín'. Ótrúlega krúttlegt. Svo innilega fordómalaust og einlægt. Vonandi verður þessum krílum aldrei kennt neitt annað en það sé eðlilegt að eiga tvær mömmur.

Rakel ýtti svo Stefáni Steinari og Daníel Dúa í áttina til okkar. Bestu vinum sínum. Þeir einu sem hún talar um. Algjörir gaura. Formleg kynning átti sér stað og svo snéri Rakel sér aftur að sínum háskaleikjum. Hún og stóðið príluðu upp á eitthvað hulið snjó og hoppuðu niður. Rakel fór svo að príla í kastalanum og henti sér fram af brúnni með látum. Skellihló og borðaði snjó. Hún er mest útikelling sem ég veit um. Fórum svo með henni inn, fylgdumst með söngstund, drukkum með þeim og vorum látnar vera með í leik í dúkkukróknum. Rakel var alsæl og glöð með mömmurnar sínar.

Þegar heim kom tókum við svakalega stórhreingerningu. Höfum bara rennt yfir gólf og þurrkað létt af síðan um jólin svo það var kominn tími á þetta. Á meðan sat Rakel nýböðuð inn í stofu og perlaði og hlustaði á Karíus og Baktus og Pétur og úlfinn. Fórum svo til mömmu og borðuðum þar lasagnað sem ég eldaði í fyrradag. Bjó til skammt sem dugði ofan í mig, Hrund og Rakel í eitt skipti og svo ofan í okkkur aftur sem og mömmu og co. Veit ekki alveg hvað ég var að pæla. Reyndar í fyrsta skipti sem ég elda lasagna með kjötfarsi (bætti reyndar fullt af grænmeti út í) og þó ég segi sjálf frá var það ótrúlega gómsætt.

Hrund má ekki gera baðskáp fyrir mömmu af einhverjum ástæðum sem eru of flóknar til að ég skilji þær. Hefur eitthvað með dýpt og mælingar að gera. Í staðinn ætlar hún að gera kommóðu handa Elísabetu Rós. Ég kom því á framfæri að þetta væri stúdentsgjöfin gefin þremur árum fyrir tímann. Það er hins vegar ansi súrt að hafa ekki pláss fyrir húsgögnin sem Sprundin smíðar í skólanum. Höfum komið fyrir barstól (notaður sem blómastandur fyrst og svo færður inn í herbergi eftir að skápurinn kom), skápur (eins og kemur fram hér á undan) og lítið borð. Það kemst ekki meira fyrir. En konan á auðvitað eftir að fjöldaframleiða þetta í framtíðinni svo það þarf eigi að örvænta.

Var í tíma í menningu og sögu rómönsku Ameríku áðan. Gud i himmelen hvað þetta er skemmtilegt og áhugvert. Það spillir ekki fyrir að þekkja marga staðina sem talað er um af því að maður hefur verið þar. Mig langar svo aftur ...

Ég á að vera að læra. Það sést á lengd færslunnar. Skemmtilegra að blogga en læra.

Best ég fari samt og sinni hljóðfræðinni. Hasta luego.


Jááááá

Færslan datt út.

En ...

 

 ÉG

 

NÁÐI

 

FORNA

 

MÁLINU.

Ég fékk 7. Sem var einmitt meðaltalið. Sátt við það þar sem ég hélt ég væri fallin. Hef samt ekki fengið svona lélega einkunn ever! Jú, kannski einu sinni í stærðfræði í menntaskóla.

Meðaleinkunnin hrapar samt ansi mikið. Er núna með 8,6.

Fékk sem sagt tvær 9, eina 7,5 og eina 7. Hef yfirleitt fengið betra. En ég reyni bara að gera betur næst.

Metnaðurinn að drepa mig


Myndir!

Vildi bara láta ykkur vita að ég er búin að setja fullt af nýjum myndum inn á síðuna hennar Rakelar á Barnalandi. Slóðin er rakelsilja.barnaland.is (svona fyrir þá sem ekki vita eða eru búnir að gleyma ...). Ef einhvern vantar lykilorð til þess að geta skoðað albúmin er hægt að senda mér póst á drr1@hi.is.

Endilega lítið við og kvittið í gestabókina. Það sama gildir hér. Væri gaman ef fleiri kvittuðu í gestabókina mína. Veit nú um flesta sem lesa en þeir sem og hinir óþekktu mega endilega kvitta fyrir innlitið.

Annars keyrði ég með litla rauðhaus upp í skóla í dag, bar hann steinsofandi inní Lögberg og gerði dauðaleit að pennaveskinu mínu sem ég var viss um að ég hefði skilið eftir í tíma um morguninn. Barnið þvældist um með mér í leit að umræddu veski. Eftir að hafa leitað í stofunni án árangurs, spurst fyrir og leitað í þriðja skipti í bílnum datt mér í huga að líta í handtöskuna mína. Þar var veskið. Krakkaormurinn gerði svo í alvöru grín að mér. 'Þarna er veskið mammí. Ekki inni. Bara í bílnum' Ha, ha, ha. Hvar gróf barnið upp þennan nastí hlátur?

Fyrr um daginn hafði ég gert verkefni í spænsku með blýanti sem sárlega þurfti að láta ydda sig. Og ekkert var strokleðrið. Barmaði mér og vorkenndi. Vissi nátla ekki að pennaveskið var í handtöskunni í sófanum.

Það á ekki að senda veikt fólk í skólann. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband