Hor í nös

Ég er enn aumingi með hor. Ligg svo sem ekkert fyrir enda ekki þekkt fyrir það en orkan klárast á svona fimm mínútum.

Helgin var í rólegri kantinum. Skruppum í Ikea og keyptum hirslur fyrir allt dótið hennar Rakelar sem er ansi mikið eftir jól og afmæli (Nú hefur hver hlutur sinn stað, allir kubbar í einni fötu, bílar og fígúrur í annarri, lestin og teinarnir í enn einni og svo framvegis. Hún getur því valið sér eitthvað eitt að leika sér með og ef hún vill skipta gengur hún frá hinu fyrst. Engillinn var fljótur að skilja kerfið og fer eftir því að mestu. Duglegust), versluðum á hana stígvél í boði mömmu og eyddum svo restinni af deginum hjá henni. Hrund er að fara að smíða skáp inn á bað fyrir hana í skólanum og hélt sig því mest inn á baði við mælingar og pælingar með mömmu. Á meðan lék rauðhaus sér og ég svaf í sófanum uppgefin eftir daginn. Við tókum því rólega fram eftir degi á sunnudaginn og litum svo við hjá tengdó. Vorum komnar snemma heim enda Hrund líka farin að finna fyrir flensueinkennum. Rakelitan er sem betur fer hress og kát.

Ég er ekkert í skólanum á mánudögum svo ég gat sofið með góðri samvisku í dag. Er ekki frá því að ég sé ögn skárri eftir hvíldina. Náði að læra smá spænsku og stinga í vél áður en ég náði í Rakel á leikskólann og við fórum svo ásamt Sprundinni að ná okkur í vetrardekk undir nýja bílinn. Hann var nefnilega á sumardekkjum sem er ekki alveg málið núna. Við fengum beiðni hjá bílaumboðinu og nú bíður nýja gullið okkar úti, tilbúið í slaginn. Ég mæli eindregið með B og L bílaumboðinu. Þeir veittu okkur frábæra þjónustu. Eins og áður sagði gáfu þeir okkur vetrardekk og þar sem það fer að koma tími á nýja tímareim og smurningu bjóða þeir líka upp á viðgerð á verkstæði. Í leiðinni verður löm á hurðinni bílsjórameginn löguð en annars er engu fleiru ábótavant. Notaði bílinn verður því eins og nýr.

Ég er búin að fá fleiri einkunnir. Fékk 7,5 í spænskri ritþjálfun sem er heilum meira en ég bjóst við. Það sem við vorum að læra var ekki svo flókið en hins vegar fjandanum erfiðara að koma því til skila á prófi og fá rétt fyrir. Var hreint ekkert ánægð með þessi próf. Náði þó greinilega ágætis árangri á lokaprófinu sem gilti 50% þar sem ég var bara með 7 í hinum 50 prósentunum sem ég lauk á önninni.

Ég fékk svo 9 í bókmenntafræði og er ánægð með það. Núna get ég sent kennaranum tölvupóst og sagt honum að ég hafi verið ein að þeim sem var með gífurlega fordóma gagnvart bókmenntafræði áður en ég fór í námskeið í henni. Kennarinn náði heldur betur að glæða áhuga minn og ég hef ekki fengið neitt nema níur fyrir ritgerðir og próf, bæði í þessu námskeiði og því sem ég lauk á síðustu önn. Hann á alveg skilið að vita að kennsla hans ber árangur.

Við Sprundin erum alltaf í því að telja krónurnar. Búum svo vel að eiga sparireikning og vera duglegar að leggja inn á hann. Hrund þurfti því ekki að taka yfirdrátt heldur fékk lánað af reikningum síðustu önn og borgaði svo til baka núna þegar hún fékk námslánin. Ég átti pening þegar ég hóf nám svo ég hef heldur aldrei þurft að taka yfirdrátt. Og það munar heldur betur um það. Nú er bara að sjá hvort peningarnir dugi ekki til að hafa sama háttinn á fyrir Sprundina á þessari önn. Okkur sýnist það nú sem er alveg ljómandi. Barnalukkan, eins og við köllum barnabætur (sem er undarlegt orð, óþarfi að bæta manni það að eiga barn) bjargar okkur svo eins og fyrri daginn. Þeir peningar fara beint inn á sparireikninginn og gera okkur vonandi kleift að gera eitthvað í sumarfríinu. Helst viljum við taka hringinn á bílnum og tjalda í guðsgrænni náttúrunni. En nú er ég komin fram úr sjálfri mér eins og alltaf. Ekki skrítið að ég sé með of háan blóðþrýsting og fái magaverki af stressi.

Mamma stakk upp á því að flensan hefði látið á sér kræla einmitt vegna þess að nú er að byrja ný önn. Mér finnst ekkert ótrúlegt að stressið brjótist svona út. Óþarfa stress að sjálfsögðu.

Ég tek bara einn dag í einu og reyni að líta á björtu hliðarnar sem eru margar í mínu lífi.

Annars á ég eftir að fá út úr prófinu í forna málinu og kvíði því óskaplega. Er skíthrædd um að vera fallin

Held ég verði að leggjast fyrir. 


Örsnöggt

Við erum búnar að kaupa okkur bíl!!! Tók okkur bara viku. Geri aðrir betur. Hann er silfurgrár og mjúkur og hlýr og nýtískulegur og fimur og léttur og rúmgóður og fjölskylduvænn og allt sem okkur dreymdi um. Hann er eins og hannaður utan um fjölskyldu. Endalaust mikið hægt að hækka og lækka sæti og færa þau til, borð aftan á framsætunum svo Rakel getur litað, risastór skott og bara allt.

Renault Megane Scenic. Rakel vill kalla hann kjöt. Ég vil kalla hann kraftmikla krúttibollu þar sem það er KK í númerinu. Hrund er ekki búin að ákveða sig. En það er nauðsynlegt að nefna bílinn. Sá fyrri hét Ójós þar sem það var OJ í númerinu og þetta var einnig heiti á einhverri fimleikaæfingu sem Rakel gerði alltaf.

 Við erum að vinna í þessu. Annars er ég hundlasin og get ekki skrifað meira. Úff


Merkilegur andskoti

Já, mér finnst það merkilegur andskoti að ég skuli einatt fyllast vanmætti og leiða þegar ég byrja í skólanum. Er alltaf með hnút í maganum kvöldið fyrir fyrsta skóladaginn og sit fyrstu tímana í hverju fagi með sömu tilfinninguna í brjóstinu. Að ég geti þetta ekki. Að þetta sé mér ofviða. Að mig langi þetta ekki. Hvurn fjandann mig langar þá er svo önnur saga.

Yfirleitt tekst mér með afli að bægja bölsýninni og þunganum frá mér. Finnst yfirleitt notalegt að rölta út í bóksölu og virða fyrir mér samnemendur mína. Láta svo ilminn af bókum sefa mig og endurnæra. Á meðan ég stend í röð í hálftíma stappa ég í mig stálinu, tel í mig kjarkinn. Og strýk mér í huganum um vangann. Sannfæri mig um að ég sé dugleg stelpa og geti allt sem ég vil.

Mér finnst alls ekki leiðinlegt í skólanum. Hefur aldrei fundist það þótt ég hafi yfirleitt legið fyrir í viku áður en ný önn hófst í menntaskóla til dæmis. Það sem angrar mig kemur innan frá. Eftir því sem ég eldist næ ég betri tökum á því og meira pláss verður fyrir vonina og gleðina og bjartsýnina. Ég hef ekki eytt meiri tíma í neitt á lífsleiðinni en í leitina að trúnni á sjálfa mig. Stundum næ ég í skottið á henni, stundum er hún handan við hornið og örsjaldan fel ég hana í höndum mér. Þegar ég tók meðvitaða ákvörðun um að breyta um stefnu í lífi mínu ákvað ég líka að gefast aldrei upp. Fyrir mótlæti, fyrir sjálfri mér, fyrir öðrum. Það ætla ég ekki heldur að gera.

Mig langar ekki að gera neitt annað en ég er að gera. Vera neitt annað en ég er. Vera annar staðar en ég er. Ég hef fyrir löngu komist að því að eirðarleysið sem ætlar mig stundum lifandi að drepa er aðeins óttinn í dulbúningi. Minni dýpsti ótti sem er svo margslunginn að ég nenni ekki að blogga um hann. Með árunum hef ég einnig náð betri og betri stjórn á honum. Stundum heltekur hann mig og þá er best að leyfa honum að gera það, með því æfist ég betur í að beisla hann.

Skiljiði ekkert í mér? Ég verð alltaf svo meyr við upphaf hluta, upphaf annar, upphaf sambands, upphaf nýs tímabils.

Við Sprundin ræddum um það í gær hversu mikið öryggi og hamingja fælist í rútínunni. Að vakna með stelpunum sínum, taka vítamín, drekka kaffi, greiða litlum rauðhaus. Muna eftir nestinu sem ég smurði fyrir okkur í gær. Kyssa bless. Búa sig undir kuldann. Soga í sig upplýsingar, fróðleik og glósa af lífi og sál. Láta hugann reika í fríminútum. Hlakka alltaf svo til að koma heim. Setja í þvottavél, elda hollt, elda gott. Baða lítinn líkama. Kúra upp í sófa og lesa með stelpunum fyrir svefninn. Hlusta á Sprundina tala um daginn í skólanum. Sjá hvernig augun leiftra og hvernig hendurnar, sem draga upp línur, benda og útskýra, endurspegla einlægann ákafann. Tipla inn í herbergi og horfa á litla engilinn sofa. Sofna með höfuð konunnar í hálsakotinu og þá vitneskju í öllum líkamanum að á morgun byrjar nýr dagur.

Væmnin að drepa mig.

Hungrið líka. Besta að fara niður á kaffistofu og borða nestið. Undra mig á því, eins og alltaf, hversu sjúklega feimin ég er. Hversu erfitt mér finnst að standa í röð og finnast allir vera að horfa á mig.

Verð að komast út úr naflanum á sjálfri mér. Það gerir allt mitt líf einfaldara.

Margur er knár þótt hann sé smár.


Peningar með sín leiðindi

Já, já, ég veit. Ég hef ekki verið dugleg að skrifa. Ætli ég hafi ekki bara verið of upptekin við að borða. Og knúsa stelpurnar mínar. Þeir sem hafa mínustekjur líkt og ég og Hrund (þ.e. lifa á námslánum og eru í skóla) njóta þess munaðar að fá ágætis jólafrí. Hvorug okkar er byrjuð í skólanum og Rakel fór í fyrsta skipti á leikskólann í gær síðan fyrir jól. Þegar rútínan er engin er bloggáhuginn að sama skapi lítill. Eða kannski er það meira það að ég hef enga ástæðu til að kveikja á tölvunni þegar ég er ekki í skólanum og blogga þar af leiðandi ekki. En núna er þetta allt að byrja svo örvæntið ekki.

 Peningar já. Ég og Sprundin ætlum að kaupa okkur bíl. Það kemur að því að maður getur ekki gert lengur við bílinn sem bilar á tveggja mánaða fresti og heimtar 40000 kr. í hvert skipti. Sem er nátla helber dónaskapur. Við skítum þessu ekki. Krónunum það er.

Ég hef því setið og reiknað út hversu dýran bíl við höfum efni á að kaupa. Ef tryggingar væru ekki svona dýrar gætum við keypt alveg hreint ágætis bíl. Í staðinn þurfum við að gera okkur sæmilegan-ágætan að góðu. Sem er allt í lagi. Ég þakka fyrir að hafa möguleikann á því að kaupa bíl og þurfa ekki að vera með barnið í strætó alltaf hreint. Þar sem við Sprundin erum einstaklega útsjónasamar og ég snillingur í að nurla saman og leggja fyrir þá eigum við dágóða summu inni á bankabók. Sem aftur gerir okkur kleift að kaupa bíl. Geri aðrir betur á mínustekjum.

Fyrir utan það að við eigum mömmur sem leyfa okkur aldrei að borga til baka þegar við fáum lánað hjá þeim. Það sparast því endalausar aukakrónur hér og þar. Takk fyrir það bestu mömmur og tengdamömmur í heimi. 

 Meira um peninga. Það eru ágætis líkur á því að ég fái vinnu í Háskólanum í sumar. Ekki endilega við sama verkefni og síðast en það er bara gaman að breyta til. Launin stóðu hins vegar nokkuð í mér. Mér finnst ekki eðlilegt að fá minna borgað fyrir þess vinnu heldur en ég fékk sem leiðbeinandi á leikskóla því eins og allir vita eru launin þar ekki til að hrópa húrra fyrir. Ég hringdi áðan niður á launadeild og komst að því að sökum aldurs (ári eldri en í fyrra) og eininga sem ég mun hafa lokið í sumar hækka ég í launum. Ef mér býðst vinna get ég því þegið hana án þess að hafa krónískar áhyggjur af peningum. Get þá kannski tekið smá sumarfrí með stelpunum mínum.

Það var þrettándakaffi á leikskólanum hjá Rakel í gær. Rakel var að springa hún var svo spennt yfir því að fá okkur í heimsókn. Þegar við komum snérist hún í kringum okkur og vaktaði okkur að sjálfsögðu því henni líkar hreint ekki vel þegar önnur börn eru eitthvað utan í okkur. 'Má ég gefa mömmunum mínum svona rjóma og kakó' sagði barnið í gær. Er það ekki bara krúttlegast í heimi? Mömmunum mínum.

Við fengum tvö ár þar sem barnið var alveg ómeðvitað um þetta 'stráka' og 'stelpu' kjaftæði. Var í hvaða litum sem var. Um daginn settum við hana í ljós-og dökkbláröndótta nærskyrtu og hún horfði forviða á okkur. Sagði þetta strákabol. Við héldum nú ekki. Hún væri stelpa og væri í bolnum og hann því stelpubolur. Rifum svo fram öll þau bláu föt sem við áttum og sýndum henni. Hún var líka að fá bláan pollagalla. 'Strákagalli' tilkynnti hún. Og við héldum sömu ræðu. Hún var alls ekkert ósátt við að fara í þessi föt. Fannst þau bara vera fyrir stráka. Ég þakka bara fyrir að fá að klæða hana í þetta. Og það mun ég gera þangað til hún fer að grenja undan því og virkilega hafa skoðanir á því.

Mikið andskoti finnst mér leiðinlegt að þetta skuli vera svona alltaf hreint með stelpu og stráka hitt og þetta. Skiptir einhverju máli hvort börn eru stelpur eða strákar þegar kemur að fötum og leikföngum? Hver sagði barninu mínu að blátt væri strákalitur? Væntanlega önnur börn. En hver kenndi þeim það?

Ég vil að dóttir min hafi frelsi til að gera það sem hún vill og vera í því sem hún vill án þess að það sé stimplað stelpu- eða strákalegt.

En ef hún er í bláu þá fær hún örugglega áhuga á bílum og verður lesbía og gengur aldrei út. Er það ekki svoleiðis?

Fjandinn hafi það. 


2008

Svo ég haldi áfram með yfirlitið síðan síðast ...

Höfðum það rosa gott hjá mömmu þann 27. des. Ég byggði pínkulítið snjóhús með Rakel milli þess sem við borðuðum og spiluðum. Akkúrat það sem maður á að gera um jól.

Jólaballið daginn eftir var líka mjög skemmtilegt. Rakel var búin að bíða spennt í marga daga, gat ekki beðið eftir því að fá að hitta jólasveininn. Enda sat hún um hann og einokaði hann allt ballið. Þurftum að útskýra fyrir henni að hann þyrfti líka að vera með hinum börnunum. Hún elti hann með stút á munninum og heimtaði koss sem hún og fékk. Fórum svo í smá jólaboð til ömmu, átum kökur og spjölluðum við fjölskylduna.

Á laugardaginn fór Hrund að hitta vinkonu sína en við Rakel eyddu deginum með mömmu í ýmsum útréttingum. Við fórum svo í bíó á sunnudaginn og var Rakel í essinu sínu. Hún fékk rúsínur, þurrkaða ávexti og piparkökur í poka og svala að drekka og var alsæl. 

Fyrri hluta gamlársdags dúlluðum við okkur hjá tengdó og svo keyrðum við Rakel til pabbans. Hún eyddi áramótunum með honum sem var ótrúlega skrítið. Eftir kvöldmat hjá tengdó brunuðum við Hrund heim og tókum á móti fullt af fólki. Fjölskyldan ákvað skyndilega að endurnýja gamla hefð og eyða kvöldinu saman svo mamma og co., systir mömmu, hennar krakkar og viðhengi og afi og amma mættu. Brjálað stuð. Frændi minn er sölustjóri hjá flugeldasölu björgunarsveita og mætti með bílfarm af flugeldum. Klikkað gaman.

 Ég og Hrund sváfum svo út í morgun og mikið var það gott. Snúllan var að koma heim og ég er um það bil að hefjast handa við matseldina. Ætla að hafa sítrónukjúkling og eplaköku með ís og Rakel ætlar að sjálfsögðu að hjálpa.

Mikið er lífið ljúft. Gleðilegt ár allir og takk fyrir samveruna á því liðna. Knús! 


Hó Hó Hó

Gleðileg jól elskurnar mínar! Hef ekkert nennt að skrifa af augljósum jólaástæðum enda tæpast nokkur nennt af lesa af sömu ástæðum.

Smá yfirlit fyrir ykkur. Sprundin var að sjálfsögðu miður sín yfir að hafa verið svona rotuð og lofaði því að bæta mér drottninguna upp. Ég skildi hana eftir meðvitundarlausa og fór til ömmu í kaffi. Hitti þar fyrir mömmu og co og við áttum notalega stund. Þegar ég kom heim var loks lífsmark með Hrundinni sem var með kryppu af samviskubiti. Við kveiktum á kertum og pökkuðum inn gjöfum og horfðum með öðru auganu á væmnar jólamyndir í sjónvarpinu. 

Rakelita kom heim upp úr hádegi á Þorláksmessu og við drifum okkur í laufabrauðsútskurð hjá mömmu. Rakel hefur algera snilligáfu í þessum forna sið. Hef aldrei séð kökur lafa saman þegar búið er að skera þær í hel. Veit nú ekki hvernig gekk að steikja þær því aldrei þessu vant var ég ekki með mömmu í því heldur dreif mig með stelpunum mínum í Jólaþorpið í Hafnarfirði. Tókum einn stuttan hring í þorpinu og héldum svo niður í bæ. Settum Rakel í kerruna og pökkuðum henni inn. Kerruna notaði ég sem göngugrind þar sem ég var í fáránlegum skóm og rann niður allar brekkur. Vorum það snemma í því að bærinn var ekki troðinn. Náðum að kaupa tvær síðbúnar jólagjafir og náðum svo í skottið á friðargöngunni. Borðuðum kvöldmat á Red Chilli og eftir það var Rakel svo full orku að hún söng, dansaði og hljóp alla leiðina upp aftur í bílinn. Við komum svo seint heim að hún var ekki sofnuð fyrr en 10. 

Ég vaknaði fyrst á aðfangadagsmorgun. Kveikti á öllum seríum, fékk mér kaffi og naut kyrrðarinnar. Fannst ég heyra í Rakel og rauk inn til hennar með látum. Hún var þá enn steinsofandi en vaknaði við lætin í mér. Enda kominn tími til, klukkan orðin ellefu. Hef aldrei nokkurn tíma vitað þriggja ára barn sem sefur svona lengi. Hrund kúrði aðeins lengur á meðan við Rakel fengum okkur morgunmat. Hún horfði aðeins á barnatímann og fór svo í jólabað og við kyrnurnar þar á eftir. Fólk leit svo inn með gjafir og eftir það var tími til kominn að elda risasvínið sem átti að vera í jólamatinn. Kallarnir komu svo upp úr fjögur og maturinn var tilbúinn á slaginu sex. Hrund brúnaði meira að segja kartöflur og ég veit ekki hvað. Eftir að hafa staðið yfir pottunum allan daginn var ég komin með kjötklígju og átti erfitt með að koma matnum niður. En það skipti nú engu. Rakel gleypti í sig matinn og vildi svo byrja að opna. Við helltum því upp á kaffi, drógum fram konfekt og hófumst handa.

Rakel fékk að sjálfsögðu allan heiminn. Fullt af fötum og bókum sem er gott og blessað, lest (ótrúlega flott, tréteinar sem maður púslar saman, sérvalið af okkur Hrund fyrir ömmu) og að sjálfsögðu eldhúsið frá mömmum sínum (stórt úr plasti, alveg hreint geggjað). Rakel ætlaði hins vegar að missa sig yfir litlum plasstyttum af múmínálfunum. Það er svo fyndið hvernig ein gjöf stendur alltaf upp úr hjá henni. Og það er ekkert endilega sú stærsta.

Barnið hvarf svo inn í herbergi að leika sér. Kom rétt aðeins fram til að skófla í sig ís. Af mikilli skyldurækni held ég. 'Má ég fara og leika mér núna?' spurði hún um leið og hún renndi niður síðasta bitanum. Að sjálfsögðu.

Karlarnir voru uppgefnir af öllu pakkaflóðinu og því sem því tilheyrir og héldu heim um tíu. Þá svaf Rakel á sínu græna eyra í grænu bangsanáttfötunum sínum. Þá fyrst höfðum við Hrund tíma til að klára að opna okkar gjafir. Ég fékk svo falleg gull. Og heilar sex bækur sem er met. Hefur ekki verið svona mikið síðan ég var krakki. Jeij!

Á jóladag var okkur boðið í heim til tengdó ásamt mömmu og systkinum mínum. Vorum að prófa þetta í fyrsta skipti, okkur langaði svo að hafa alla sem okkur þykir vænt um á sama stað. Þetta gekk vonum framar. Okkar beið þvílíkt veisluhlaðborð og eftir átið fóru allir að spila. Líka Rakel sem brussaðist um allt og ruglaði öllu. Krúsímús. Veislan stóð í sex tíma og við Hrund snertum ekki jörðina af gleði þegar við héldum heim.

Í gær fórum við með Rakel til pabba síns og svo var ég formlega orðin drottning dagsins. Við Sprundin fórum á Gráa köttinn og fengum okkur hádegismat. Tókum svo göngutúr í kringum tjörnina og stoppuðum aðeins í Ráðhúsinu til að skoða ljósmyndasýningu. Fórum svo í þrjúbíó í lúxussalnum í Smárabíó. Sáum The Golden Compass sem var alveg hreint fyrirtak. Eftir bío náðum við okkur í burritos á Culiacan (held ég að það heiti) og leigðum okkur Home Alone eitt og tvö. Rakel kom heim um átta og við lásum bókina 'Sjóræningjar skipta ekki um bleyjur' sem var alveg sjúklega fyndin. Eftir að engillinn var sofnaður hófumst við Hrund handa við glápið og Sprundin nuddaði mig. Alveg yndislegt.

Við erum boðnar í hangikjöt til mömmu á eftir og á morgun er jólaball fyrir starfsfólk Alþingis sem við ætlum að sjálfsögðu að mæta á. Eftir það verður haldið til ömmu í smá hitting svo það er nóg að gera.

Rakel situr nýböðuð og spariklædd og horfit á Bubba byggir. Sprundin sefur með nýju dúnsængina sína, sem ég og mamma gáfum henni í gjólagjöf, inni í rúmi. Ég sit í yndislega náttsloppnum sem ég fékk í jólagjöf frá ömmu (Hrund fékk líka og við höfum varla farið úr þeim) og er að hugsa um að skella mér í sturtu og sápa mig og skrúbba mig með öllu því sem við Hrund fengum um jólin.

Náði næstum að kremja barnið mitt í hel í nótt. Rakel kemur sjaldan upp í á nóttinni. Bara á morgnana þegar hún er vöknuð, þá skríður hún upp í til okkar smá stund áður en það er kominn tími til að fara á fætur. Í nótt hefur hún komið upp í án þess að við Sprundin yrðum varar við það því annars hefðum við farið með hana aftur í sitt rúm. Yfirleitt get ég alls ekki sofið með þennan bröltbolta upp í hjá mér. Á það líka til að ýta við henni í svefni þar sem ég held oft að þetta sé Sprundin á góðri leið með að knúsa mig í hel. Rakel verður yfirleitt sármóðguð og gargar á mig að hún verði þá bara hjá mömmu. Leggst svo ofan á hana og sefur þar. Hrund rumskar að sjálfsögðu ekki. Enginn í heiminum sefur fastar en hún. En allavega. Í nótt hefur Rakel sumst skriðið upp í og ekki einu sinni ég rumskað.

Ég vaknaði hins vegar við það um hálf sjö að hann var farinn að hvessa og gardínan slóst af miklu afli í gluggakarminn (erum með trérimlagardínur sem eiga það til að vera með mikil læti). Ég reisti mig við til að loka glugganum en sem ég ætla að leggjast aftur finn ég að Hrund hefur plantað hendinni þvert yfir allt mitt svefnpláss. Ég ýtti henni í burtu (ógesslega leiðinleg, ég veit, það tók mig allt fyrsta árið okkar Hrundar að venja mig við að hafa einhvern hjá mér í rúminu, hvað þá einhvern sem vildi knúsa mig og vera utan í mér, er orðin miklu betri núna og sef ömurlega ef Hrund er ekki hjá mér) og lagðist niður. Ofna á litlu barnahandleggina hennar Rakelar og höfuðið á henni. Heyrði bælt 'ÁÁÁIII'´og færði mig. Þarna lá litli engillinn í holunni milli okkar Hrundar og með höfuðið á koddanum mínum. Ég hafði ekki brjóst í mér að reka hana í rúmið sitt eftir þessa meðferð á henni svo ég leyfði henni að vera. Hún hins vegar mjakaði sér sár yfir á koddann til mömmu sinnar. Fyrirgefðu Rakel mín!

Er búin að pakka niður spilum sem við ætlum að taka með til mömmu. Rakel elskar að spila. Pakkaði líka útifötum fyrir Rakel í poka og ætla sjálf að taka með mér kraftgalla. Það er tími til kominn að við Rakel missum okkur í snjónum.

Það verður að hlúa að barninu í sér. 

ps. Það er ótrúlega fyndið hvernig fólk lætur vel að hvort öðru. Eins og við Hrund til dæmis. Ef ég er ekki með gleraugun finnst okkur svo fela andlitin í hálskoti hvor annarrar og eitthvað þannig og þetta minnir mann á hest og önnur dýr þegar þau eru að knúsast. Ég sagði einmitt við mömmu að við værum nátla dýr og alveg eins og önnur dýr eða að mestu. Við erum bara dýr með skeinipappír. 


Úje

Jibbí kóla og allt það. Ein erfiðasta prófatörn sem ég hef átt er BÚIN. Held mér hafi gengið ágætlega í spænskri ritþjálfun í gær. Verð allavega frekar hissa ef ég fell. Var búin að læra ógrynni af orðum utan að svo ég væri viss um hvernig þau væru skrifuð (allt orð í námsbókinni en á síðasta prófi kom svo mikið af orðum sem ég hafði ekki lært og hafði ekki hugmynd um hvað þýddu). Það kom um það bil eitt orð af því sem ég hafði lært. Það var lystisnekkja. Hin orðin hljóta öll að hafa verið mjög algeng orð því hún sagðist aðeins myndu nota orð úr bókinni og svo algeng orð. Ég þekkti nú samt minnst af orðunum. Kannski minning mín um spænskukunnáttu mína sem var svo góð í Costa Rica sé einhver blekking. Eða ég hafi aldrei notað algeng orð. Veit ekki.

Aðal málið er að þetta er búið. Brunaði beint (það er reyndar lygi, var rúman hálftíma heim úr Háskólanum og eyddi löngum tíma í bílaröð með geðveikum Íslendingum seim EIGA AÐ VERA Í VINNUNNI KLUKKAN ÞRJÚ) eftir prófið á leikskólann að sækja engilinn minn sem hentist í fangið á mér. Pabbi hennar kom svo að sækja hana og eftir fórum við Hrund eins og hvítir stormsveipar um húsið. Skúruðum og skrúbbuðum, þurrkuðum af og gerðum ýmislegt aukalega og betur en venjulega enda hátíð ljóssins handan við hornið. Ég uppgötvaði mér til skelfingar um átta leytið að ég hafði ekkert borðað síðan um morguninn, það útskýrði höfuðverkinn og slappleikann. Ég má bara alls ekki gera þetta. Eina leiðin fyrir mig til að borða eðlilega er að halda matardagbók. Hæfileikann til að umgangast mat eins og felst fólk gerir eyðilagði ég fyrir löngu. Hef hins vegar slugsað dagbókina undanfarið og einbeitt mér að prófhelvítinu. Kannski ég fari að byrja á þessu aftur svo ég endi ekki annaðhvort eins og loftbelgur eða eins og tannstöngull. Úje. (Held stundum að ég deili allt of miklu með ykkur, það eru svo margir sem lesa bloggið sem ég þekki ekki neitt.) 

Hildur vinkona sem býr í Danmörku kom í heimsókn í gærkvöldi og Oddný besta vinkona bættist svo í hópinn. Hún fer norður á morgun eins og alltaf um jólin, kemur svo heim í nokkra daga og flytur svo til Akureyrar. Hún er besta vinkona mín í heiminum. Við kynntumst í lýðháskólanum í Danmörku þegar við vorum 19 og höfum elskað hvor aðra síðan þá. Eins glöð og ég er fyrir hennar hönd (hún var að komast inn í VMA og ég er ótrúlega stolt af henni) finnst mér svo sárt að missa þennan yndislega sálufélaga minn norður. Tilhugsunin um að geta ekki skokkað yfir til hennar hvenær sem er fer alveg með mig. Við dauðkvíðum kveðjustundinni báðar og eigum örruglega eftir að grenja með látum. Svona er að vera fullorðinn. Vinir þínir hætta að vera í tíu metra radíus frá þér. 

Hrund endaði á djamminu í gær og kom heim undir morgun. Ég var búin að plana að vera drottning dagsins, þ. e. nota einn af miðunum sem ég fékk í jólagjöf frá henni í fyrra og ráða deginum alfarið. Mér er hins vegar lífsins ómögulegt að vekja hana. Hnuss. Ég er samt ekki búin að gefast upp. Er búin að stússast upp á háalofti, ganga frá skóladóti (allt úr forna málinu er enn þá hérna niðri, finnst það vera að storka örlögunum að ganga frá því áður en ég veit hvort ég næ) og slasa mig mörgum sinnum við leit og príl upp og niður stigann að háaloftinu. Þar sem ég er algjör dvergur reynist mér mjög erfitt að opna háaloftið og enn þá erfiðara að loka því. Loftfimleikar á hæsta stigi og ég er mjög lofthrædd. Var skíthrædd um að hálsbrjóta mig. Og enn þá hræddari um að Sprundin myndi ekki einu sinni vakna við skarkalann. Ég yrði svo étinn af rykmaurum og fjölskyldan þryfti að éta pizzu í jólamatinn.

Jólamatur. Einhvern veginn gerðist það að pabbi Hrundar OG tveir bærður hans eru að koma á aðfangadag. Fyrst svitnaði ég soldið við tilhugsunina en þar sem ég er svo mikill gestgjafi í mér er ég farin að hlakka til núna.

Ef konan mín myndi bara vakna og þjóna drottingu sinni. Hún átti að vekja mig með kaffi og vera búin að láta renna í bað fyrir mig. Í stað þess sit ég í náttskyrtunni einni saman og nenni ekki í sturtu. Einhver sem vill leyfa mér að stjórna sér í dag og stjana við mig? Ég er 159, aðeins of þung (sumir myndu segja að ég væri fallega þrýstin á réttum stöðum ...). Ég er með græn augu og dökkt og hrokkið hár. Ég hef gaman af skapandi skrifum, lestri og öllu sem felur í sér adrenalínkikk (eins og að labba upp brattasta og lengsta og hæsta stiga í heimi (eða næstum) upp á topp á Mayarústunum í Guatemala, skjálfandi af hræðslu og hálf grenjandi). Freistandi? Alguien?

Á morgum kemur jólastelpann heim og fær loks að skreyta jólatréð sem hún er búina að tilkynna að hún ætli að dansa UM og syngja djiggebegg (jingel bells)  og göngum við í kringum mánudag (eða eitthvað álíka). Svo ætlum við bara að dúlla okkur. Fara í jólalahúsið í Hafnafirði og kannski skera út laufabrauð og taka einn Laugara.

Það er að segja ef Hrund verður vöknuð.

Hljóma ég bitur?

Elska samt yndislega konukjánann minn.

Ætla að ná í glimmerkórónuna sem Rakel fékk í jólagjöf, setja hana á mig og fíla mig sem drottningu.

Úje. 


Eru þið ekki að grínast?

Skítadagur. Fór jákvæð og bjartsýn í prófið í forna málinu. Byrjaði vel en fór svo að ganga illa og svo mjög illa. Féll á tíma og náði ekki að klára einn lið, af hinum fimm veiku sögnum sem ég átti að setja í flokka hef ég kannski rambað á einn réttan flokk. Gat ekkert sagt um þær og ekki klárað svarið. Þegar kom að því að ég átti að samræma texta að forni stafsetninu hafði ég korter ekki fimmtíu mínútur til að gera það eins og áætlað var. Ég skrifaði án þess að hugsa og náði ekki að pæla í neinu.

Fór svo að ná í eina skýrslu og eina ritgerð í bókmenntafræði. Kennarinn hefur gleymt að setja ummælin og einkunn með eins og hann gerir alltaf. Veit reyndar að ég fékk 9 fyrir ritgerðina mína, hann sendi mér einkunnina í tölvupósti um daginn af því að hann var veðurtepptur heima hjá sér. Að ég skuli fá svona fínt fyrir bullið í mér. En hvar eru ummælin? Gleymdi hann mér 

Heima beið mín veik Hrund sem ég druslaði á fætur og með mér í Bónus að versla í jólamatinn. Kortinu var hafnað. Höfum eytt mikilu meira en við héldum í mat þennan mánuðinn, nátla afmæli og jól og svona. En samt. Ekki gaman. Redduðum þessu með vísa. Fórum svo að taka bensín. Bensínkortinu var hafnað. Fórum svo að leyta að óáfengu rauðvíni í Hagkaup sem á að vera í jólasósuna. Það var uppselt.

Fórum í annað Hagkaup þar sem rauðvínið fannst. Á leiðinni út labbaði ég á og er nú að drepast í vinstri hendinni.

Og hvað þarf ég svo að gera núna. LÆRA SPÆNSKU. Ég bara get ekki meira.

Óþolandi dagur.

Annars er ég búin að fá eina einkunn. Fékk 9 í spænskri málfræði sem er meira en ég bjóst við.

Klukkan er orðin þrjú og ég er ekki byrjuð að læra. Oj, bara. 


Dauf augu?

Er hægt að skrifa fyrir daufum augum eins og hægt er að tala fyrir daufum eyrum?

Stundum efast ég allavega um að nokkur lesi þetta blogg. Eiginlega soldið asnaleg að halda úti dagbók á netinu sem kannski enginn les. En ég má ekki vera of hörð við ykkur, mér sýnist nú að slatti af fólki líti hér við á hverjum degi. Þð megið samt alveg kommenta meira.

Annars hef ég engan tíma akkúrat núna til að vera að þessu. Ég er í auga hvirfilbylsins eins og stendur. Forna málið myndi vera bylurinn og það er spurning hvort ég komist lífs af.

Afmælið fór ofsa vel fram. Allir glaðir og ánægðir. Gestirnir komu í þremur hollum, fyrst mín fjölskylda, svo Hrundar og síðast vinkonur okkar. Síðustu gestirnir fóru um hálf ellefu (Rakel var nú reyndar löngu sofnuð þá) svo þetta var ellefu tíma veisla. Rakel var í essinu sínu og sýndi engin merki um þreytu. Fékk helling af bókum og fötum og litum og tónlist og hljóðfærum og perlum ogégveitekkihvað. Fékk líka traktor og plastkýr frá mömmu og lá mest allt afmælið í gólfinu og baulaði og burraði.

Hrund bakaði köku og var að springa úr stolti. Við skreyttum svo afraksturinn og ætluðum varla að tíma að éta hann, kakan var svo flott.

Rakel talar stanslaust um litla bróður sinn sem fer bráðum að fæðast. Í hvaða legi hann er veit ég ekki. Pabbi hennar hringdi í gær og spurði hvort það væri eitthvað sem við vildum segja honum, einhver bróðir á leiðinni? Ekki svo gott. Barnið var því yfir sig hrifið þegar Títa vinkona mætti með Júníönu, sex mánaða dóttur sína. Rakel ætlaði að éta hana, knúsaði hana og kyssti, kallaði hana HANN Júlíus og vildi endilega fá hann til að leika við sig inn í herbergi. Þetta er í annað skiptið sem Rakel er í kringum svona lítið barn og það er stórkostlegt að fylgjast með þessu. Greinilegt að hún þráir systkini.

Laugardagurinn var kærkomið frí. Vaknaði snemma á sunnudag og fór til mömmu að læra. Stelpurnar mínar komu svo þangað í mat og Rakel fór í bað með nýja baðdótið, myndir og sápuliti til að lita þær með. Eftir kvöldmat fóru Hrund og Rakel að tygja (hvernig í ósköpunum er þetta skrifað? svona verður maður heiladauður af lærdómi) sig og ástin litla koma með skóna mína til þess að tryggja það að ég kæmi nú með þeim. Þegar ég sagði að ég gæti ekki komið, ég yrði að læra, henti hún þeim aftur í gólfið, yggldi sig og sagðist reið við mig af því að ég vildi ekki koma með þeim. Hún skilur ekkert í því að ég skuli alltaf láta mig hverfa, spyr sífellt um mig og er öskuvond yfir því að ég vilji ekkert með hana hafa. Heldur hún. Sagði svo við mömmu sína að ég væri leiðinleg. Mamma hennar hefur verið í því að reyna að útskýra fyrir henni að mig langi til að vera með þeim en geti það ekki. Tóninn er eitthvað farinn að breytast hjá litla skinninu. Núna setur hún upp sorgarsvip og þylur: 'Aumingja mammí, greyið mammí, getur ekki verið með okkur, þarf bara að læralæralæralæra.'

Hún fór svo til pabba síns í gær og kom eldsnemma í morgun. Afmælisstelpan, orðin þriggja ára. Við Hrund gáfum henni okkar gjöf, litaspil, lottó og Blómin á þakinu. Sátum flötum beinum í holinu og náðum að spila einu sinni áður en Rakel fór á leikskólann. Í kjól og með ís handa krökkunum. Alveg í skýjunum.

Er búin í bókmenntafræðiprófinu. Gat svarað öllu, hversu vel ég gerði það kemur í ljós. Er svo, eins og áður sagði, að rembast við að berja hljóðskiptaraðir og stofna inn í hausinn á mér. Er búin að gera ógrynni af töflum til að auðvelda mér að skilja og muna, hvenær ég ætla að hafa tíma til að læra þetta allt utan að veit ég ekki. Hvað ef ég fell? Er að reyna að hugsa eins og Oddný vinkona segir að ég eigi að gera: Ef ég fell tek ég bara prófið aftur. Get hins vegar ekki hugsað svo langt. Hef aldrei kviðið prófi eins mikið.

Erum búnar að kaupa jólatré. Rauðhærði jólaálfurinn var með í för og bíður spenntur eftir að fá að skreyta. Trúi ekki að jólin séu handan við hornið og ég að spá í hvernig einhver helvítis rótarsérhljóð voru aftur í forneskju. Ég bið um grið.

Annars horfði ég á breska heimildarmynd um aðstæður kvenna í Afganistann í gær. Hefur maður efni á því að kvarta?

Guð i himmelen. 


Ofsaveður

Þetta er nú meiri veðráttan. Heitapottar, fellihýsi og grill fjúka um eins og lauf í vindi. Dótagræðgin kemur aftan að okkur og munaðurinn feykist um og hlær. Þeir sem ekki hafa látið neyslugeðveikina hlaupa með sig í gönur sitja sallarólegir á sínum rassi og hafa ekki áhyggjur af því að neitt fjúki nema kannski aðhaldskrafturinn sem einkenndi þá í byrjun desember. Allir vilja komast í jólafötin.

Sem er bæ ðe vei stórundarlegt. Kaupir fólk sér í alvöru of lítil föt fyrir jólin og er svo sveitt við að grenna sig í þau allan desember? Ég kaupi mér nú bara föt í réttri stærð og slepp við svitann.

Þetta er svona álíka fáránlegt og þegar konur eru spurðar hvort þær vilji frekar, súkkulaði eða kynlíf (sbr. t. d. How to lood good naked síðast). Lenda einhverjar konur í alvöru í þeirri aðstöðu að þurfa að velja á mili? Eru kallarnir bara hey! ég sef ekki hjá þér nema þú hættir að gúffa í þig súkkulaði, mér býður við þessari súkkulaðifýlu af þér!

Ég segi nú bara bæði betra og myndi gefa Hrundinni mjög illt augnaráð ef hún væri eitthvað neyða mig til að velja á milli.

Annars er Rakelita orðin frísk. Fór á leikskólann í gær í sparifötum enda jólaball. Fékk að hafa með sér piparkökur í poka eins og háttur er á jólaballsdegi leikskólans. Barnið ætlaði að tryllast úr gleði þegar ég sýndi henni pokann um morguninn, hentist í fötin og bað svo um 'næstið' sitt (af einhverjum ástæðum kallar hún allt gott, t. d. eftirrétt, nesti eða 'næsti'). Eftir miklar fortölur fékkst hún þó til að borða sínar lífrænu kornflexflögur og geyma næstið þangað til í hádeginu.

Ég var burtu allan daginn í gær að læra og kom ekki heim fyrr en um miðnætti. Hringdi í stelpurnar mínar um kvöldmatarleytið alveg veik af söknuði. Rakel tilkynnti mér óðamála í símann að hún hefði fengið vasaljós frá Skyrgám(i) og Kjötgám(i) í leikskólanum. Kjötgámur? Vissi ekki að jólasveinarnir væru orðinr 14, svona fylgist maður illa með.

Eins ógirnilega og það hljómar er Rakel með svokallaðar flökkuvörtur. Þetta eru týpískar leikskólavörtur sem svo oft herja á börn á leikskólaaldri nema þessar flakka (ertu ekki að grínast?). Tókum fyrst eftir einni fyrir svona einum mánuði rétt hjá vinstra handarkrikanum. Stuttu seinna voru þær orðnar fleiri og hertóku litla handarkrikann. Við fórum með hana til læknis sem sagði að best væri að kreista vörturnar eins og bólur, þ. e. þessar stærstu, og þá myndu þær minni fara. Alveg er ég viss um að ekki nokkur einasti læknir sem ráðleggur þetta hefur reynt að framkvæma þessa aðgerð á sínu eigin barni. Svitinn lak af okkur Hrund á meðan önnur hélt barninu og hin kreisti og reyndi að stinga á. Barnið öskraði og barðist um og tilkynnti okkur að pabbi hennar þyrfti sko ekkert að skoða eða meiða hana. Við vondu mömmurnar.

Rakel var fljót að jafna sig en ég og Hrund skulfum af vanlíðan og samviskubiti. Það er hræðilegt að meiða barnið sitt svona. Ætluðum ekki að geta hætt að knúsa stelpuna okkar, biðja hana fyrirgefningar og reyna að útskýra af hverju við hefðum verið að þessu. Sögðumst vissar að jólasveinnin gæfi henni eitthvað extra flott í skóinn þar sem hún hefði verið svo dugleg.

Árangurinn af þessu helvíti: ENGINN.

Rakel fékk hins vegar bók í skóinn og var alsæl.

Hef svo gaman af því hvernig Rakel talar. Hún hefur svo skemmtilegan orðaforða. Það læra börnin sem fyrir þeim er haft (er þetta ekki svona?). Á tímabili var ég með 'óskaplega' á heilanum. Á sama tíma var Rakel alltaf ósklilega (lesist óskaplega) þreytt og óskilega svöng. Þegar hún var spurð að því hvað hún væri að gera svaraði hún því til að hún væri 'að skottast um'. Stekkjastaur gaf henni litabók með jólasveinamyndum sem hún þurfti nátla helst að lita allar áður en hún fór í leikskólann. Sem hún flettir bókinni rekur hún augun í mynd sem vekur áhuga hennar: Hey, sérru, Glýra og Leppilúði. Þetta er nú eitthvað kunnulegt.

Mikið er gaman að barnið mitt skuli skottast um og reka augun öðru hverju í eitthvað óskaplega kunnulegt. 

Hef verið að læra forna málið undanfarna tvo daga. Gud í himmelen. Það er ekki málið að ég skilji þetta ekki. Þetta er allt mjög rökrétt og áhugavert. En mér finnst ekki mennskt að láta okkur leggja þetta allt á minnið. Ætti að vera hjálpargagnapróf. Það væri alveg hægt að prófa skilning okkar á efninu þótt við fengjum að fletta einhverju upp. Eins og alltaf í hjálpargagnaprófum þarf maður að skilja og vita hvar á að leyta til að ná prófinu. En eins og þetta verður er verið að prófa hvernig dagsformið er þennan tiltekna prófdag og hversu minnug við erum.

Í dag er það hins vegar bókmenntafræði aftur og gott að fá tilbreytingu. Um sex ætla ég svo að drífa mig heim og föndra afmæliskórónu handa stelpunni minni með konunni. Risahjúmongus veisla verður svo haldin á morgun og er ég bara farin að hlakka til. Hrund ætlar að snurfusa aðeins heima í dag og svo verður mölluð súpa í kvöld og bökuð glæsileg speltbangsaafmæliskaka, skreytt með mislitum glassúr. Það sem maður gerir ekki fyrir afkvæmi sín.

Jæja. Bókmenntafræðin kallar: Hey, ertu ekki að koma þú þarna égnenniekkiaðlæralangarbaraaðhorfaávideoundirsæng. Mig langar nú að svara einhverju óprenthæfu en læt það vera. Skráði mig sjálf í þetta nám. Hvernig gerðist það nú aftur?

Djöfull var Kjötgámur heppinn á sér að komast til byggða áður en aftakaveðrið hélt innreið sína. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband