Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009
31.3.2009 | 10:43
Ljúft
Helgin upp í bústað var hreint út sagt fullkomin. Við spúsan dúlluðum okkur á föstudagskvöldið og eftir að ég var farin í háttinn föndrað Sprundin og dútlaði við gjöfina mína. Fékk yndislega mynd, ljóð og einstaklega fallegt kort frá henni, gamaldags vog og Íslenska orðsifjabók. Eftir morgunmat fórum við í göngutúr í brjáluðu veðri og stuttu seinna komu Rósa og Gestur. Við spiluðum og dunduðum okkur þar til restin af liðinu kom: Hlíf og viðhengi, Gyða og viðhengi og Katla mín. Kvöldinu eyddum við í grill, spil, spjall og pott og ég skemmti mér konunglega. Fékk líka símtal frá Oddu poddu sem var það eina sem vantaði í afmælið. Á sunnudeginum var guðdómlegt veður og allir fengu sér göngutúr og bröns fyrir brottför. Við Hrund fórum seinastar um fimm og vorum heldur betur lengi á leiðinni heim. Föttuðum rétt hjá Borgarnesi að við höfðum gleymt öllum matnum í ísskápnum svo við snérum við og leiðinni til baka tókum við sömu puttaferðalanga upp í bílinn og voru á leið í Húsafell á föstudeginum. Keyrðum svo í brjáluðu roki og skafrenningi megnið af leiðinni og svo hvasst var á Kjalarnesi að bílum var hleypt í hollum og umferð stöðvuð í mestu hviðunum. Þetta var ævintýri út af fyrir sig.
Sprundin var svo eftir sig að hún er orðin veik en hún dröslaði sér samt með rauðhaus í búð í gær að kaupa gjöf handa mér og þær færðu mér blóm og bökuðu gulrótarköku sem verður borðuð á eftir. Í morgun var Rakel svaka spennt og hljóp og náði í alla pakkana sem ég opnaði upp í rúmi. Fékk Múminálfakex og flotta peysu frá henni, allskonar Nicaraguaglingur frá pabba og dekur frá mömmu og systkinum. Í kvöld ætlum við fjölskyldan plús mamma, Bebe og Einsi bró á Asíu og á eftir fá allir köku og mjólk hér heima.
Takk fyrir allar hamingjuóskirnar og gjafirnar. Þetta er alveg yndislegt.
27.3.2009 | 15:04
Vúhú
27.3.2009 | 10:01
Helvítis focking fock
Í nokkrar vikur hefur bíllinn verið tregur í gang. Ég er aldrei á bílnum svo ég veit ekki hvenær þetta byrjaði en Hrund var voða róleg og virtist ekki finnast nein sérstök þörf á því að fara með hann á verkstæði. Ég hefði betur fylgt eigin hugboði því í morgun fór hann bara ekkert í gang.
Og við erum að fara í sumarbústað Á EFTIR.
Létum draga bílinn á verkstæði sem kostaði litlar 7600kr., eitthvað sem við höfum ekki á. Ég veit ekkert hvað er að bílnum eða hvað á eftir að kosta að gera við hann og vil bara ekkert vita það. Ef þetta er rafgeymirinn hafa þeir heldur betur farið illa með okkur því nokkrum vikum eftir að við keyptum bílinn kom í ljós að rafgeymirinn var ónýtur. Við fengum nýjan settan í á kostnað BogL og ég veit ekki hvort sá hefur verið svo mikið drasl að hann hafi bara lifað í 1 ár.
Fyrir nú utan það að lánið sem við tókum til að kaupa bílinn er í erlendri mynt og höfuðstóllin hækkar og hækkar og hækkar og við hefðum fyrir löngu átt að vera búnar að borga inn á hann í staðinn fyrir að hlusta á þá sem sögðu okkur að bíða.
Af hverju treysti ég ekki bara á sjálfa mig fjandinn hafi það. Þetta átti að vera svo góður dagur og ég söng og trallaði eldsnemma morgun þar sem ég tók til og vaskaði upp svo allt yrði hreint í kotinu þegar við kæmum til baka. Og svo kom Hrund inn aftur og sagði að bíllinn færi ekki í gang.
Helvítis focking fock.
Eins gott að afi geti lánað okkur bílinn sinn, annars verður ekki mikið úr þessi sumarbústaðaferð.
Hata bíla og HATA peninga og djöfull er ég komin með nóg af þessu landi. Ef ég væri ein væri LÖÖÖÖÖÖÖNGU flutt til Svíþjóðar í stað þess að hanga hérna á þessum spillta útnára.
OJ.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 11:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.3.2009 | 09:24
Neiiiiii
Ég er orðin lasin. Bhúhúhúhúhú. Ekki reyndar með ælu heldur með skítaflensu. Held að ég kvíði bara svo þessari spænsk ritgerð SEM ÉG ER EKKI ENN BYRJUÐ Á að líkaminn hafi farið í verkfall.
Litli ælupúkinn er allavega kominn á leikskólann.
Eins gott að ég verði orðin frísk fyrir afmælið.
Og svo er SPRON farinn á hausinn. Búhúhúhú. Elsku bankinn minn.
Og svo er búið AÐ HÆKKA ÆTTLEIÐINGARKOSTNAÐINN. Holy moly. Gerum það alveg vonlaust að gefa börnum heimili og barnlausu fólki börn. Ullum bara á þannig góðverk og falleglegheit.
Ekki það að ég við höfum neitt efni á að ættleiða neitt á næstunni þótt það sé inn á planinu. Fyrir nú utan að vera kynvillingar sem gerir okkur í augum sumra landa óhæfar til að sjá um börn.
NEIIIIIIIII
24.3.2009 | 11:59
26
Já, nú er ég bara alveg að verð 26 ára eða á þriðjudaginn næsta. Ef einhvern langar að gefa mér afmælisgjöf þá langar mig í allar Harry Potter bækurnar á íslensku og eitthvað dekur, nudd og svona. Man ekki eftir öðru í augnablikinu.
Annars er Hrund búin að ákveða hvað hún ætlar að gefa mér, segist hafa séð það um jólin og ég er að kafna úr spenningi. Vona líka að hún bjóði mér út að borða. Elska mat.
Elska ykkur.
23.3.2009 | 16:14
...
... eða ég vona að það verði bústaður um helgina. Rakel ældi áðan út allan sófann og á gólf og borð og sjálfa sig og eftir að hafa þrifið það (oh my lord hvað það var erfitt) þá er ég hrædd um að ég fái þessa pest. Síðast þegar Rakel fékk svona var ég orðin veik eftir 3 daga. Ef ég verð ekki orðin veik á föstudaginn hef ég líklega sloppið þótt maður viti nú aldrei.
Aumingja Rakel að vera svon veik
og aumingja ég!!!
23.3.2009 | 15:17
Klikkað veður
Veðrið er með geðhvarfasýki og haldið miklum valkvíða eins og svo oft í mars. Maður fer út í sumarjakka og er næstum frosinn í hel klukkutíma seinna þegar tekur að snjóa.
Við vorum allar of þreyttar til að fara í íþróttaskólann á laugardaginn auk þess sem hann er drepleiðinlegur. Þessa önn hefur Rakel yfirleitt verið eina 4 ára barnið með einhverjum bleiurössum og ögrunin er enginn. Þótt þessi íþróttaskóli Háskólans sé ódýr finnst mér þetta nú fyrir neðan allar hellur, það verður að hafa ákveðið marga í hverjum aldurshóp. Hún fer ekki aftur í þetta, ætlum að athuga með fótboltanámskeið næst.
Sváfum bara og dúlluðum okkur, keyptum inn, borðuðum pulsu og fórum svo í bíó á mjög góða teiknimynd verð ég að segja. Fórum svo til tengdó að skottast og ég og Rakel fórum í göngutúr niður á höfn og fengum næstum varanleg ör í andlitið eftir brjálaðasta haglél allra tíma. Snæddum hjá tengdó og héldum svo heim sælar.
Ég og Rakel fórum í morgunkaffi til mömmu á sunnudaginn á meðan svefnpurkan Hrund hélt sig heima. Hún er nú svo morgunfúlasta manneskja sem ég þekki, ég held að þetta gæti vel orðið skilnaðarorsök. Við fórum svo að sjá Kardemommubæinn og oh my hvað það var gaman. Augun ætluðu út úr höfðinu á Rakel af spenningi allan tímann, hún kann söguna utan að og það var þvílík upplifun að sjá ræningjana í eigin persónu. Fórum heim í pizzubakstur og blómastúss eftir leikritið og höfðum það gott.
Hrund kom svo heim með veikan kút um ellefuleytið í morgun. Hún var pínu heit í gær og sagði mér að henni væri illt allstaðar í morgun og þegar hún var á leiðinni út í leikskólanum ældi hún á pollagallann sinn. Hrund bauðst til að koma með hana heim og þrífa fötin þar sem hún á mun auðveldara með að þrífa ælu en ég. Þær voru nú búnar að þrífa allt þessar elskur í leikskólanum svo Hrund gat farið strax aftur. Ég og Rakel skriðum upp í rúm og krílið steinsofnaði og svaf í tvo tíma. Hún er hins vegar mjög slæm í maganum og hafði greinilega orðið brátt í brók í svefni svo ég þurfti að skutla henni í baðið og þrífa litla barnarassinn. Svo hefur hún hlaupið á klósettið um billjón sinnum síðan hún vaknaði og stundum þarf að skipta um brækur í leiðinni. Auk þess er hún með hita litla skinnið.
Ég á að vera að skrifa ritgerða í spænsku en er svei mér þá farin að fá martraðir út af henni. Ætla til mömmu annað kvöld og byrja þá ef ég verð ekki byrjuð (sem væri nú fínt). Mamma á það til að losa um ritstíflur hjá mér með nærveru sinni einni saman.
Rakel situr í sófanum og hlustar á Pétur og úlfinn. Borðaði einn eplabát en vill ekkert meir. Mamma ætlar að koma við á eftir með bláberjasúpu og gatorade fyrir angann litla. Ég er að hugsa um fá mér vöfflurnar sem ég bakaði og krílið hefur enga lyst á.
Svo er það bara bústaður um helgina. Yndislegt.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.3.2009 | 10:23
Sítrónur og krydd
Eldhúsið ilmaði af kryddi og ólvíuolíu í gær. Ég var að elda kjúkling eins og mér er einni er lagið. Þegar ég kreisti sítrónu yfir hann áður en ég skellti honum í ofninn bar anganin með sér myndir af pabba. Þegar ég var lítil hjá pabba í Svíþjóð vaknaði ég yfirleitt við koss frá honum og nýþvegnar og blautar krullurnar hans í andltinu. Á meðan ég skottaðist um á náttkjólnum gerði pabbi armbeygjur og magaæfingar við dynjandi salsatónlist og greip mig gjarnan með í dans. Við fengum okkur heimabakaðar bollur með osti og tómat úti á svölum og plönuðum daginn.
Við hjóluðum yfirleitt eitthvað, ósjaldan með kaldan mat í nesti og sænska saft og mér fannst alltaf eins og engispretturnar tifuðu mér og sumrinu til heiðurs.
Mér fannst alltaf svo gott við pabba að hann var með brúna húð eins og ég og sama hrokkna hárið. Með honum skar ég mig aldrei úr.
Á kvöldin svamlaði ég í baðkarinu á meðan pabbi dansaði í eldhúsinu og söng og töfraði fram dýrindis mat. Sítónur og krydd var eitthvað sem var alltaf notað og er enn þá besta lykt sem ég veit.
Pabbi leyfði mér alltaf að smakka í eldhúsinu og kenndi mér að dást að matnum á hverju eldunarstigi hans. Sýndi mér hvernig ferskt og safríkt kjöt átti að líta út og lykta, kenndi mér nöfnin á kryddunum sem hann notaði og hvað krydd hentaði hvaða tegund af kjöti og svo elduðum við það af ástríðu og skoðuðum það reglulega til að sjá hvernig eldunin gengi hjá okkur. Við smökkuðum og bragðbættum og urðum svo þyrst að við kreistum sítrónur og appelsínur í könnu og drukkum til að slökkva þorstann.
Þegar maturinn var kominn á diskinn þótti mér vænt um hann. Við pabbi höfðum iðulega keypt inn saman. Hann hjólaði með mig aftan á bögglaberanum niður í bæ þar sem við gleymdum okkur á mörkuðum innan um hauga af grænmeti, kryddum og hnetum. Svo bárum við allt heim í bakpoka og ég fékk að raða öllu í skálar og skápa.
Eftir matinn var alltaf lítið uppvask því pabbi vaskaði upp að minnsta kosti þrisvar á með hann var að elda. Það geri ég líka núna þegar ég er orðin stór. Ég fékk svo uppáhalds eftirréttinn minn, banana í ofni með kanil, hunangi og púðursykri og ís með. Í í ferhyrndu pappaformi sem maður skar sneiðar af. Frystirinn var inni í forstofu og ég mátti alltaf ná í ísinn.
Við horfðum svo á bíómynd á meðan við lágum á meltunni. Lágum yfirleitt í hjónarúminu sem mamma og pabbi keyptu einu sinni. Snérum sjónvarpinu svo við gætum horft undir sæng. Pabbi hélt alltaf fyrir augun á mér ef í myndinni var kynlífssena eða eitthvað ofbeldi. Hendurnar á honum ilmuðu ávallt af sítrónum, kryddi og hvítlauk og ég fann beygluðu löngutöngina hvíla á nebbanum. Heimtaði svo söguna um það hvernig hann sem krakki braut puttann í Nicaragua og amma reyndi að rétta hann við. Ég reyndi alltaf að sjá pabba fyrir mér í landinu sem ég hafði aldrei komið til, með fjölskyldunni sem ég hafði aldrei hitt. Einhverjum 10-15 árum seinna sá ég einu myndina af pabba litlum sem ég hef séð. Á myndinni var hann um 3 ára og með bróður sínum Raúl sem er dáinn. Amma sýndi mér myndina.
Ég þekki hverfið hans pabba eins og handarbakið á mér. Þarna eyddi ég mínu fyrstu dögum, mínu fyrsta ári og einhverjum vikum á hverju sumri eftir það. Einum eða tveimur jólum líka og áramótum. Ég þekki áferðina á dúknum á gólfinu, lyktina í stigaganginum, skápinn inni á baði, kryddin í hillunum, sólbakaðar svalirnar, hart rúmið, myndirnar óteljandi af mér á veggjunum, vatnið í hálftíma fjarlægð, tungumálið, barnatímann, tónlistina hans pabba og pabba sjálfan.
Góðu stundirnar okkar pabba voru góóóóðar. Og í hvert einasta skipti sem ég elda verður mér hugsað til pabba. Og skiptisins þegar ég eldaði súpuna mína fyrir hann í fyrsta skipti.
Ég vildi að Rakel gæti hitt hann oftar. Vildi hún kynntist sænska sumrinu og kryddunum hans pabba. Fengi að vakna á morgnana og dansa. Þetta skipti sem við fórum allar þrjár til pabba líður mér seint úr minni.
Ég vona að við komumst fljótt aftur til hans.
Vinir og fjölskylda | Breytt 22.3.2009 kl. 08:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.3.2009 | 17:10
Ammili ...
... en engin veisla held ég.
Ég hef bara aldrei lent í því að enginn komist í afmælið mitt, á ekki afmæli á þannig tíma og hef nú ekki mikið haldið upp á það síðan ég var tvítug. Boðið mínum bestustu í bjór og skrall þegar þær voru allar hérna en annars ekkert. Afmælið í fyrra var reyndar alveg eðal.
Datt svo í hug að halda afmælið upp í bústað og bauð alls 12-14 manns held ég en býst við að Hrund komist og jú Rósa, annars enginn. VÚHÚ.
Það er víst Mímisþing þessa afmælishelgi svo ég get gleymt íslenskunemunum sem ég bauð. Hinar vinkonurnar allar uppteknar og afar óvíst hvort frændur komast.
Hnuss.
17.3.2009 | 15:20
ÖSKUR
Öskur og læti í mínu lífi. Ekkert nema helvítis gröfur og vörubílar og loftborar og háværir hamrar endafokikinglaust í þessar götu. Pétur er að missa vitið og tekur daga þar sem hann getur ekkert annað en öskrað. Núna situr hann hokinn og starir út í tómið. Ég öskraði vel valin blótsyrði út í alheiminn áðan sem ekki sála heyrði fyrir helvítis drununum hérna.
Og svo er SANDUR Í VATNINU. Og eitthvað annað rusl og ég er viðurstyggilega þyrst.
Allir iðnaðarmenn Íslands sem enn eru með atvinnu hljóta að vinna í götunni minni.
Það eina sem ég vil er kjötsúpa og ró og friður.
Mamma ætlar að elda kjötsúpu og bjóða mér í hana bráðum.
Það er ef ég verð ekki búin að missa vitið og rjúka froðufellandi út á götu til að henda gaffli í skítugar gröfur.
Ró og friður held ég ekki að sé á dagskrá.
Eldri færslur
- Janúar 2014
- Október 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Október 2010
- September 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar