Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Jibbí

Mér tókst það. Kláraði námskeiðið og ritgerðina og fékk fínar einkunnir. 8 fyrir ritgerðina og 9 fyrir námskeiðið. Er ekkert smá sátt. 8 er fínt fyrir ritgerð sem var skrifuð á síðustu stundu og 9 flott fyrir námskeiðið, mætti bara helminginn af önninni og gleymdi svo orðabókunum í prófinu.

Útskrifast með bumbu og 8,5 í meðaleinkunn.

Helvíti stolt af mér bara.


Mæður

Nú er búið að senda eyðublöð til Þjóðskrár þar sem beðið er um breytingu á kenninöfnum okkar Hrundar og Rakelar. Þegar þetta verður komið í gegn verðum við allar kenndar við mæður okkar og föður (ég með eftirnafn):

Díana Rós Aðalbjargardóttir Rivera

Hrund Sigurlaugar- og Þórisdóttir

Rakel Silja Hrundar- og Róbertsdóttir.

 

Þar sem þetta eru of margir stafir verða nöfn mæðra okkar skammstöfuð í Þjóðskrá og í öllum opinberum skjölum:

Díana Rós A. Rivera

Hrund S. Þórisdóttir

Rakel Silja H. Róbertsdóttir.

 

Ekki amalegt að kenna sig við þessi kjarnakvendi.


JÁÁÁÁÁÁ

Var að skila BA-ritgerðinni fullkláraðri!!!!!!!

Sjitturinn titturinn hvað þetta var mikil vinna og dísús hvað lokatörnin í dag tók á.

Takk elsku besta mamma í heimi fyrir að trúa alltaf á mig og fara yfir herlegheitin þar til þú varst að missa vitið.

Takk stelpurnar mínar fyrir að eiga alltaf til knús handa mér.

Takk tengdó fyrir að vera klettur í mínu lífi.

Takk Jói fyrir þolimæðina.

Takk öll hin rassgötin mín.

 

Þetta er merkisdagur. Í dag fann í ég fyrsta skipti fyrir krílinu mínu. Eins og lítill fjörfiskur neðst í leginu. Er nokkuð viss um að þetta var krílus. InLove


Hræddur

Það hræðir mig að svínaflensan sé komin til landsins og sérstaklega að helmingur þeirra sem hefur þurft að leggjast inn á spítala vegna flensunnar í Bandaríkjunum hafi verið ófrískar konur og aðrir sem eru veikir fyrir. Auk þess er tæpur helmingur látinna í Mexíkó ófrískar konur eða fólk sem er veikt fyrir.

Búhú.

Ég er ófrísk kona.


Treyttur

Úff. Þetta var svaka törn með leiðbeinandanum. Var alveg að gefast upp á tímabili, finnst þetta eitthvað svo óyfirstíganlegt. Kláraði að skrifa ritgerðina á síðustu dropunum og á eiginlega ekkert eftir í lagfæringar. Er svo pínu alveg að fara að grenja núna, er svo þreytt.

Ég fæ allavega ekki lægra en 7,5 en ekki víst að ég nái 8. Verð bara að reyna að hugsa að 7,5 sé gott miðað við allt sem á undan er gengið og miðað við þá takmörkuðu orku sem ég hef. Var að telja saman áðan og ætli ég hafi ekki skrifað ritgerðina á svona 3-4 vikum. Með heimildaöflun. Náði mér í einhverjar heimildir í febrúar og skrifaði innganinn í tveimur hollum, gerði ekkert í mars og apríl nema líða illa og hafa áhyggjur af unganum mínum og náði að gera eitthvað smá áður en ég þurfti að fara að læra fyrir próf. Svo bara massaði ég þetta á tveimur dögum.

Ég veit að þetta er eins og löng afsökun en ég þarf að muna þessar staðreyndir svo ég geti sætt mig við 7,5. Ég myndi alveg skilja það ef ég fengi þá einkunn þótt ég yrði ekkert voða glöð. Ég sagði leibeinandanum hins vegar að ég myndi taka gleðidans fengi ég 8 og hann er eitthvað spenntur fyrir þessum dansi.

Nei, nei, eigum við ekki að segja að líklegasta einkunnin sé 7,5 og allt fyrir ofan það væri gífurlegur bónus og ég myndi pottþétt fara að grenja mikið af gleði.

ps. Annars hitti ég spænskukennarinn minn áðan sem vildi endilega hrósa mér fyrir prófið sem ég fór í hjá henni orðabókarlaus um daginn. Hún sagði að það hefði verið mjög flott og mér hefði farið svo mikið fram. VÚHÚ.

Segiði mér nú að ég sé dugleg. En samt ekki nema ykkur finnist það.


Töffaramótorhjólastelpa

Duglegasta stelpan í heiminum æfði sig í að hjóla án hjálpardekkja í gær. Svolítið langt síðan við gerðum það síðast en hún hafði engu gleymt og rúllaði þessu upp. Undir lokin var hún alveg farin að hjóla sjálf og mundi eftir að bremsa í stað þess að sleppa bara fótunum af pedulunum með þeim afleiðingum að enda sífellt út í runna. Hún fékk puslu og ís á miðri leið, hugsað sem bæði verðlaun og orka, og brilleraði á leiðinni heim.

Henni fannst hún vera flottasta töffaramótorhjólastelpan og okkur fannst það líka. Ekkert smá kúl með hné- og olnbogahlífar og grifflur (eða er þetta með einu f-i?).

Hún var örþreytt þegar við komum heim eftir næstum þriggja tíma túr og var fljót að sofna með nýja marbletti út um allt.

Litla hetjan mín.

Erum að hugsa um að skreppa í sund á eftir og erum búnar að mæla okkur mót við Robba niðri í Laugardal svo hún geti sýnt pabbanum hvað hún er dugleg. Þau fara svo heim saman yfir helgina.

Ég er að fara að hitta leiðbeinandann minn á eftir og vona að hann hafi einhverja góða hluti að segja um ritgerðina. Nýti svo næstu daga í að leggja lokahönd á ritgerðina, fara í útskriftarveislu hjá Unni duglegustu frænku og á tónleika með Lhasa sem er algjör snillingur. Á von á því að þetta verði frekar viðburðarrík helgi.

Íha.


Sumar

Það sem fyrir mér er sumar breytist alltaf eitthvað með árunum. Einu sinni var ekkert meira sumar en pabbi og Svíþjóð með tilheyrandi hjólaferðum, grilli, ís, böðun og spænskuslettum. Seinna voru það við hinar fjórar fræknu sem ekki máttum af hvor annarri sjá allt sumarið og eyddum því helst öllu í fliss og unglingaveiki. Þegar ég varð enn eldri var sumar útlönd, Hróarskelda, Spánn, interrail og auðvitað sumarvinna inn á milli.

Það sem hefur alltaf verið sumar frá upphafi er mamma brún í framan í ermalausum bol og sumarið speglast í háa enninu. Þegar mamma er komin í stuttermabol út er komið sumar. Hún er hins vegar berleggjuð og helst í opnum skóm frá því að snjórinn fer svo það er ekki að marka það.

Sumar núna er Hrund í berfætt í sandölum, manneskja sem er í ofurhlýjum gönguskóm fram í maí. Rakel með sólarvörn í hárinu, mamma að lesa úti á palli, garðurinn hennar tengdó, heitur pottur, berir leggir mínir undir pilsinu og stækkandi bumba.

Ætlum í sund í fríinu á morgun þótt það verði farið að rigna. Samt sumar.

Annars er ég að hugsa um að fagna lokum BA-námsins með smá grillveislu fyrir fjölskylduna næstu helgi. Við Hrund ætlum að bjóða heim í fallegasta kotið okkar og fá alla sem okkur þykir vænst um til að gleðjast með okkur.


Búhú

Af hverju er ég alltaf að lesa þessa þræði um þyngd á meðgöngu inni á bumbuspjallinu mínu? Af hverju get ég ekki bara sleppt því? Af hverju er ég enn einu sinni komin með fitu og þyngd á heilann þegar ég var búin að lofa mér því að eyðileggja ekki meðgönguna fyrir mér þannig? Af hverju er ég alltaf að stíga á vigtina? Af hverju er ég svona hrædd við að þyngjast? Af hverju þori ég enn síður að stíga ekki á vigtina? Af hverju þarf ég endilega að vera með bjúg sem lætur mig vera enn þyngri? Af hverju get ég ekki bara litið vel út þegar ég er ólétt eða að minnsta kosti verið ánægð með það hvernig ég lít út?

Ég er svo skíthrædd við það að verða enn feitari en ég er að ég get ekki lýst því fyrir ykkur. Langt síðan ég hef verið svona heltekin ótta.

Gæti grenjað bara. Grenjað. Er gjörsamlega með fitu á heilanum. 


OMG

Áðan skilaði ég ritgerðinni í heild sinni til leiðbeinanda míns. Á fimmtudaginn fæ ég hana til baka með ábendingum og ræð hvað ég lagfæri. Á morgun ætla ég að búa til forsíðu, efnisyfirlit og heimildaskrá og mánudaginn 25. maí ætla ég að SKILA. Og ef allt gengur að óskum þá ÚTSKRIFAST ég í júní. Með kúluna mín út í loftið eins og mig hafði alltaf dreymt um.

En einn dagur í einu. Ég kláraði ritgerðina í dag. VÚHÚ.

Læt sko ekki þreytu, ógleði, of háan blóðþrýsting, bjúg og bakverki óléttunnar stoppa mig. Nei, nei.

Djöfull er ég ánægð með mig svona einu sinni.


Skrif

Jæja, allur minn tími núna fer í að skrifa BA-ritgerðina. Er að gæla við þá hugsun að klára hana á réttum tíma þótt ég þyrfti nú að skila henni frekar lélegri kannski. Það myndi bara skipta svo miklu upp á fæðingarstyrkinn og andlega heilsu mína að klára bara þetta dæmi.

Eyddum laugardeginum á Selfossi og Stokkseyri, fórum í fjöruna og rauðhaus í fótbolta. Allt með afa Þóri sem leikur endalaust við hana. Í gær fóru stelpurnar svo snemma til tengdó á meðan ég lærði frá mér allt vit. Skrapp aðeins til þeirra, lærði í sólinni og skellti mér í pottinn. Fórum svo í mat til mömmu og eftir það fóru stelpurnar heim á meðan ég skrifaði. 

Það er starfsdagur í leikskólanum hjá Rakel í dag svo hún situr inni í herbergi og leyfir mér að skrifa. Systkini mín ætla að sjá um að leika við hana á eftir svo ég geti lært.

Er svo streeeeessuð. Kvíði því svo að skila uppkastinu í kvöld til Jóa, þarf svo á því að halda að breyta litlu en veit að hann á eftir að vilja láta mig breyta miklu.

Verð að halda áfram að skrifa núna.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband