Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Ástand

Gamla þvottavélin lekur og hefur gert það í einhvern tíma. Vatnið boraði sér leið í gegnum steypuna og undir parketið inn í svefnherbergi hjá okkur Hrund og olli usla þar. Núna erum við búnar að koma rúminu fyrir inn í stofu og endurraða húsgögnum og er ansi troðið. Á morgun verður parket rifið upp og gerð tilraun til að drepa alla sveppi og þurrka steypu en guð má vita hversu langan tíma það tekur. Líklegast verður líka að rífa upp flísarnar inni á baði, þurrka steypu og leggja nýja flísar. Og auðvitað kaupa þvottavél.

 Mikið er gott að við Hrund skítum peningum. Hvernig í ósköpunum annars ættum við að borga þetta allt saman.

Nýja árið byrjar vel sagði ég við Hildi mína áðan. Nei, það gamla endar svona sagði hún.

Já, þetta hefur verið skrítið og skemmtilegt ár og óvenjulega viðburðaríkt. Alveg því líkt að vilja enda hlutina með stæl. Mér finnst reyndar óþarfi að gera það á minn kostnað ...


Myndir

Jæja, loks eru komnar myndir fyrir okt.-des. inn á rakelsilja.barnaland.is

Ég set svo inn myndir frá afmælinu, jólum og áramótum á nýja árinu.

Sendið mér skiló ef þið viljið lykilorð.


Jólasnjór

Já, hann er hér fyrir utan snjórinn þvert á allar spár. Lætur ekkert segja sér fyrir verkum.

Þessi jól hafa verið einstaklega vel heppnuð. Maður lærir með árunum hvað hentar sinni fjölskyldu best og eftir að hafa gert þrjár tilraunir með Hrund tókst sú fjórða með eindæmum vel. 

Þorláksmessu hef ég þegar lýst. Á aðfangadag dúlluðum við okkur fyrir hádegi og fórum svo í spjall og kósýheit til tengdó og vorum þar fram eftir degi. Að verða þrjú var húsmóðirin komin í mig með látum og ég þurfti að komast heim í eldhúsið mitt, setja á mig elsku bestu svuntuna og byrja. Mægður brölluðu ýmislegt á meðan ég bjó til guacamole og salat og skellti ógrynni af sítrónukjúlla í ofn. Við Hrund vorum svo sammála um það ekkert væri eins jólalegt og að hlusta á jólin hringd inn og hafa svo gaulið í kórnum og prestinum í bakgrunni þegar snætt er. Maturinn var ljúffengur, aldrei verið betri.

Mamma, Valur og systkini komu eftir uppvask og opnuðu með okkur pakkaflóðið. Þá byrjaði ég allt í einu að finna fyrir hálsbólgu. Þegar búið var að opna pakkana var ég orðin lasin. Þetta var í fyrsta skipti sem ég slakaði á síðan í nóvember og greinilegt að við það brustu allar varnir líkamans og hann hreinlega gafst upp. Ég var búin að banna honum að vera með vesen svo lengi og nú gat hann ekki meir. Ég er hins vegar mjög fegin að vera veik núna en hafa ekki verið það í prófunum. Takk líkami.

Anywho. Ég fékk fimm yndislegar bækur, æðislegt sjal frá tengdó, eyrnalokka og legghlífar frá Rakel (nú get ég hætt að stela Hrundar), rós handa Rósinni frá Hlíf og prjónavettlinga, alveg eins og ég óskaði mér, frá Gyðu, pasmínu frá ömmu og krúttaragjafir frá Kötlu og Oddnýju. Pabbi gaf mér hálsmen og stuttermaboli keypta í Ástralíu og Nicaragua. Svo fengum við Hrund líka gjafir saman, púsl og spil og rúmföt og peninga og eldhúsdót. Ég held ég sé ekki að gleyma neinu en ef svo er, afsakið mig. Hausinn er fullur af kvefi.

Við Hrund eyddum deginum í gær í að gera ekki neitt sem var ó svo ljúft. Rakel fór til pabba síns svo við þurftum engum að sinna nema okkur sjálfum.

Ég píndi mig á fætur og í sturtu áðan sem er samt það versta sem ég veit þegar ég er lasin. Erum að fara í boð til tengdó en þangað koma mamma og co. Gerðum það sama í fyrra og það var ekkert smá gaman.

Best að fara að koma svefnpurkunni með ljósa hárið á fætur.

Muna að taka með snýtubréf.

 


Dugleg

Klukkan hálf sex var ég búin. Að gera allt sem ég taldi upp áðan og töluvert meira til. Var rétt búin að skúra þegar Sprundin kom heim.

Váááá. Sagði hún þegar hún leit í kringum sig. Hangkjötsilmur og sápuangan í loftinu. Allir hlutir á sínum stað. Jólaljósin fallegri en nokkru sinni. Kátur krakki, fjörugur páfagaukur og ein sveitt kona.

Hrund tók utan um mig og sagði:

Guð var að vanda sig þegar hann gerði þig.

Þótt hvorug okkar trúi því að guð hafi skapað okkur var þetta yndislega fallega sagt.

Eftir súpu og brauð fór ég í sjóðheitt bað með birkisafa og vöðvaslakandi baðsalti og las á meðan Hrund vaskaði upp og þær mæðgur pökkuðu inn gjöfum. Við spiluðum svo músaspilið hennar Rakelar og skemmtum okkur konunglega við það. Eftir sturtu hjá mæðgum skreið ég upp í rúm til Rakelar og las las las. Ætlaði svo aldrei að komast upp úr rúminu og þurfti að kalla á Hrund og fá hana til að hjálpa mér. Mitt brjósklosbak samþykkir það nefnilega ekki að ég taki til í næstum sex tíma. Og hvað þá ef það felur í sér að ryksjúga og skúra. Núna sit ég því hér í sófanum hrein og strokin og dauð í bakinu með hitaboka við bakið og axlirnar til að reyna að koma í veg fyrir að ég fái tak í bakið.

Sprundin náði í hitapokann og grjónapokann og kom öllu haganlega fyrir.

'Ætlar þú að gera þetta fyrir mig' spurði ég hana

'Auðvitað, ertu ekki að farast í bakinu' svaraði hún

'Jú. Takk. Ég pakka þá bara inn einni gjöf á meðan'

'Nei'

'Nei?'

'Nei'

'Hvað á ég þa að gera' vildi ég vita.

'Ekkert'

'Ekkert?'

'Ekkert'

 

Núna er ég því að reyna að gera ekkert. Hrund segir að ég sé glötuð í að slaka á. Og það mun vera rétt. Þótt ég geti ekki rétt úr mér þá finnst mér endilega að ég eigi að gera eitthvað.

En ég að slaka á svo ég ætla að reyna að gera eins og mér er sagt.

Hrund er að setja hreint á rúmið.

Hangikjöt, piparkökur, mandarínur, negulnaglar, greni. Saman er af þessu heimsins besti ilmur. Sérstaklega í bland við sápulykt af hreinum kroppum og gólfum og rúmfötum.

Ummmm.

Óska ykkur þess yndislega ilms og góðra stunda með familíunni. Þurfum ekkert meira held ég.

Gleðleg jólin!


Hundrað

Í  gær pakkaði ég inn hundrað pökkum, fór svo upp í rúm og sofnaði á u.þ.b. hundrað sekúndum. Í morgun skreytti ég jólatré með H og R og eru nú á því um hundrað kúlur. Svo bjó ég til hundrað pönnukökur og kakó með og tróð í liðið áður en ég skóflaði því út um dyrnar. Svo fór ég í gegnum fötin hennar Rakelar sem og útiföt og tróð í hundrað poka sem ég fór með upp á loft. Ég vaskaði upp hundrað brothætta hluti, þurrkaði af hundrað húsgögnum, gekk frá hundrað hlutum, braut hundrað flíkur, setti í hundrað vélar og þurrkara og ryksaug svo húsið, ekki á hundrað því ég vildi gera þetta almennilega. Nú á ég eftir að setja hangikjöt í pott, þrífa vaska, klósett, bað, sturtu, spegla, borð og gluggakistur með hreinsefni (lífrænu ó já), tusku og svamp að vopni. Og vatn auðvitað blessað. Þar á eftir ætla ég að taka til kvöldmat handa sísvöngu liðinu en eftir það ætla ég í bað sé mín ekki frekari þörf. Þar ætla ég svo að liggja og hvíla mig eftir þessa þorláksmessu. Svo ætla ég að spila við rauðhaus eins og ég lofaði og hafa kvöldkaffi í tilefni dagsins því af hverju í fjandanum var ég annars að baka svona helvíti mikið í prófunum.

Ef þú vaknar klukkan níu og sest bara einu sinni niður til að borða klukkan ellefu og svo næst klukkan þrjú líður þér eins og allt sem þú gerðir hafi verið margfaldað með hundrað. 

Hundrað.

Þetta er alls ekkert leiðinlegt. Eða sko að þrífa er viðbjóður en ég vil hafa hreint. Og samt er þetta ekkert nein svaka jólahreingerning. Hrund er bara í vinnunni svo ég er ein að þessu og ógisslega lengi að því.

Svona er maður duglegur.

Of svöng til að skrifa meira.


Og þá er ...

... stórveislu ársins lokið og heppnaðist hún með eindæmum vel. Ég er búin að hitta Kötlu og Hildi sætu fínu sem er komnar til landsins. Við erum búnar að fara í Ikea og kaupa bókhillu fyrir bækurnar sem ég á eftir að fá í jólagjöf. Ég dröslaði líka risavaxna jólatrénu inn af svölunum og var við það næstum frosin í hel. Hrund tálgaði af fætinum og kom því fyrir á sínum stað. Rakel fór allt of seint að sofa í gær af því að það var svo mikið að gerast. Fórum beint að baka piparkökur og skreyta hjá mömmu þegar hún kom frá pabba sínum og þegar við komum heim varð hún aðeins að fá að setja saman legóið, fara með mömmu sinni upp á hálaloft, borða eina sneið af Spidermanköku og dást að trénu. Ég er búin að fara á próflokadjamm, sofa í tólf tíma sökum uppsafnaðar þreytu, pakka inn tveimur jólagjöfum, bjóða tengdapabba í jólamat, leika við Pétur, setja tónlist inn á nýja ipodinn minn og bölva rigningunni í dag því ég ætlaði að rölta um með Gyðunni í jólasnjónum sem er núna farinn.

Þetta var kannski svolítið ruglingslegur texti og ekkert þarna í tímaröð en jólin eru að koma og ég gerði svolítið í morgun sem er leyndarmál en gerði mig ofsa glaða og bara. Ekkert meir.

Yfir og út.


Stóra stelpan mín

Já, litli, rauðhærði, búttaði, tannlausi, sköllótti búddistinn minn er 4 ára í dag. Sniff. Það er þrjú ár og 10 mánuðir síðan ég kynntist henni fyrst og hún var ekki lengi að vinna hug minn og hjarta. Þegar ég horfi á engilinn sofa á kvöldin fyllist ég svo mikilli gleði og stolti yfir að hafa átt þátt í að skapa þennan litla einstakling því þótt hafi engin gen frá mér þá hefur hún margt annað. Alveg sama hvað framtíðin ber í skauti sér hef ég markað spor mín í þetta barn og það er yndisleg tilfinning.

Sko, ég er strax byrjuð að grenja. Ég hef varla gert annað í þessum prófum og tek til baka að þau hafi verið dramalaus.

Rakel fór í leikskólann í morgun í fínu pilsi og stuttermabol, í Spidermansokkabuxum við og með hauskúputattú á handleggnum. Við gerðum díl um að ég fengi að hafa fallega hárið slegið að mestu en setti í staðinn tvær litla Línufléttur í það. Mér finnst þetta bara svo lýsandi fyrir Rakelina mína: Hauskúpur og pils, sítt hár og spidermansokkabuxur. Og þetta endurspeglar hversu áhrifamikið uppeldið er. Þið vitið öll að við Hrund höfum varist stelpu þessu og stráka hinu með kjafti og klóm. Börn eru börn og það þarf ekkert að skilgreina þau út frá kyni. Á nær hverjum degi ítrekum við þetta við Rakel og leiðréttum þegar hún talar um strákaliti og stelpudót. Og þetta er greinilega ekki vonlaus baráttu því leyfir sér að hafa áhuga á því sem hún hefur áhuga á burtséð frá því hvort það er markaðssett fyrir stráka eða stelpur.

Í gær var ég næstum farin á límingum þegar strætó skilaði mér korteri of seint í próf. Ég hafði sofnað reið kvöldið áður og vaknað reið (af ástæðum sem ég ætla sannarlega ekki að blanda ykkur í) og það rauk úr eyrunum á mér í strætódruslunni. Ég var hreinlega á öskrinu inn í mér. Jólin hafa lengi verið mér erfið og ég á mjög erfitt með að tengja þau einhverju gleðilegu (bara vegna slæmrar heilsu hreinlega, hefur ekkert með fjölskylduna að gera). Þegar ég var sem veikust fór ég að gráta þegar mamma spurði mig hvort við ættum að hafa snickers- eða marssósu með jólaísnum. Ég bara réð ekki við að hugsa um að borða ís einu sinni. Fyrir utan það þá var ég svo illa haldin af matarskorti að ég sofnaði í sófanum áður en við byrjuðum að opna pakkana. Oj bara. Eftir að ég flutti að heiman og sjúkdómurinn var ekki eins skæður bara missti ég mig í einhverju stressi og væntingum til jólanna. Bleh. Ég gefst hins vegar ekki upp og trúi því að þessi jól verði góð. Ég skulda fjölskyldunni minni það sem alltaf reynir að gera allt fyrir mig.

Ég verð að losna við þetta svarta ský úr höfðinu. Ég er orðin svo þreytt á því.

Ætla bara að hugsa um fallega, heilbrigða barnið mitt sem ég söng afmælissönginn fyrir í morgun.


Ó svo róleg

Já, er enn þá frekar tjilluð. Finn samt alveg að spenningurinn og stressið er að fara af stað í maganum en ég er samt með þetta allt undir contról. Fór í hitting í gær þar sem við fórum yfir latinobókmenntirnar og ég komst að því að ég er alls ekki eins illa lærð fyrir það próf og ég hélt, ég er bara með þetta nokkuð vel á hreinu. Það verða 4 ritgerðarspurningar í prófinu og ég er yfirleitt ekki í vandræðum með að skrifa og túlka svo þetta ætti að vera í lagi. Las svo yfir íslenskuglósurnar í gær, er eitthvað að reyna að leggja þetta blessaða drasl á minnið en það gengur ekkert of vel. Stefni að því að lesa þær glósur aftur í dag sem og glósur fyrir kvikmyndir. Svo er bara bókmenntaprófið í spænsku á morgun og með því byrjar fjörið. Þrjú próf í röð og afmæli framundan. En allt undir contról ...

Æ, annars er stundum svo erfitt að vera manneskja. Ég hef sjaldan átt eins ljúf próf og núna (7-9-13), það hefur alltaf verið eitthvað drama og vesen og ég ekki náð að einbeita mér nógu vel að prófunum sem hefur líklega haft einhver áhrif á einhverjar einkunnir. Ætli ég verði ekki að reyna að sætta mig við að útskrifast með 8,5 í meðaleinkunn þótt ég hefði nú viljað fá hærra. Vil allavega samt fá 8,5 svo nú er að duga eða drepast.

En sumst. Já, mér finnst oft erfitt að vera manneskja og ég er ekki ein um það. Talaði við eina yndislega vinkonu mína í gær sem á stundum í erfiðleikum með hugann eins og ég. Ég óskaði þess á meðan við töluðum saman að ég gæti strokið henni um vangann í gegnum í símann. Næst þegar ég hitti hana ætla ég að gefa henni ærlegt knús. Önnur af mínum kærustu er að ganga í gegnum margt núna. Getur verið erfitt þegar lífið ákveður fyrir mann að það sé komið að ákveðnu uppgjöri og spyr ekki að því hvort maður sé tilbúinn eða hvort þetta sé góður tími. Mig langar bara að taka hana, stinga henni í hlýju vasa míns og gæta hennar þar þangað til þetta er allt yfirstaðið. Vildi að ég gæti tjáð með orðum hversu vænt mér þykir um þessar vinkonur mínar.

Hrund náði í orm til pabba síns í gær og sagði honum að strákur að nafni Pétur biði hennar heima. Hún vissi ekkert meira en það og að hann sæti á priki. 

'Er hann fæddur' hrópaði hún af gleði við þessi orð móður sinnar.

Úps. Barnið hélt að langþráður bróðir hennar væri fæddur og biði hennar heima. Viðbrögðin þegar hún sá fugl í búri í stað í bróður síns voru:

'Fugl' FootinMouth

Og var greinilegt á tóninum að hann var ekki eins merkilegur og litli bróðir hennar. Og svo mátti hún ekki vera með læti í kringum hann og hann var hræddur við hana og hún mátti ekki taka hann út úr búrinu. Og hún var skítfeimin við hann.

En í dag er hún glöð með hann, hjálpaði mér að snurfusa hjá honum og talaði aðeins við hann. Bíður spennt eftir því að við getum tekið hann út úr búrinu og er mjög óþolinmóð. Ég sagði henni að þetta væri eins með fugla og lítil börn, maður þyrfti að fara varlega og vera þolinmóður. Ég á von á því að viðbrögð hennar við litla systkini sínu, hvenær sem það kemur í heiminn, verði svipuð. Það á ekki eftir að geta leikið við hana og á ekki eftir að geta gert neitt og kannski orgar bara þegar hún er að reyna að tala við það. Það er því gott að Pétur kenni henni að tækla þetta. Og þetta á eftir að verða svo gaman þegar Pétur er orðin heimavanur og vinur okkar allra. Er hæstánægð með þessa gjöf handa Rakel og að vera loks komin með lítinn strák í fjölskylduna.

Rakel er enn veik. Við ætlum að baka og hafa það gott á milli þess sem ég glugga í glósurnar.

Best að hefjast handa.


Pétur

Sætasti grágurinn í heiminum bættist í fjölskylduna í gær, nefnilega litli gárinn Pétur páfagaukur. Hann ætlaði ekki að koma til okkar fyrr en á miðvikudaginn en það hentaði betur að hann gerðist fjölkskyldumeðlimur í gær.

Ég og Sprundin fórum og versluðum í gær fyrir afmælið hennar Rakelar (sem er ó svo mikil klikkun, 40 manns eða eitthvað álíka, held ég geri þetta ekki aftur en verður vonandi gaman ef Rakel eða ég förum ekki á límingunum bara) og ákváðum að líta inn í Dýraríkinu í Blómaval og kaupa það sem vantaði. Vorum búnar að fá þetta fína búr gefins og eitthvað dót með en vildum hafa allt tilbúið þegar við keyptum fuglinn. Sami fugl og ég tók eftir fyrr í vikunni þegar við vorum að kaupa jólatré fangaði athygli mína um leið. Agnarsmár, piparmyntugrænn og algjör fjörkálfur. Það endaði með því að við tókum hann með okkur heim í litlum kassa. Ég sussaði og bíaði á meðan Hrund fór út að hita bílinn og svo keyrðum við ofur varlega. Meðan ég gekk frá vörunum þreif Hrund búrið og dótið og Pétur gekk fram og til baka í kassanum sínum. Við vorum bara allt í einu búnar að nefna hann Pétur. Ætluðum að leyfa Rakel að nefna hann en okkur datt Pétur strax í hug þar sem það er uppáhaldsnafnið hennar Rakelar. Hún skírði bróður sinn ófæddan Júlíus og gamla dúkkan hennar Hrundar fékk að halda Pétursnafninu en annars heita hennar bangsar ekki neitt eða skipta um nöfn daglega. Við ætluðum nú ekki að fara að skíra fuglinn Júlíus svo Pétur lá beint við.

Allavega. Við opnuðum kassann við opið á búrinu og vonuðumst til að Pétur myndi fara sjálfur inn. Sem hann gerði. Svo duglegur! Hann skoðaði sig lengi um í kassanum og mat aðstæður en svo lét hann bara vaða. Og hann er alveg ótrúlegur. Oft eru fuglarnir bara í losti í tvo daga en hann fór aðeins í fuglabaðið sitt og nartaði í nammið sitt, labbaði fram og til baka í búrinu og í gærkvöldi var hann kominn í þvílíkan leik í rólunni sinni. Inn á milli man hann samt að hann er skíthræddur og litla hjartað berst af svo miklum krafti í brjóstinu að hann hristist og skelfur.

Gyða fuglaáhugamaður og sérfræðingur kom svo og mat fuglinn, aðbúnað og staðsetningu og gaf okkur góð ráð. Talaði við Pétur með fuglaröddinni sinni og bondaði aðeins við hann áður en við Gyðus fórum að læra.

Pétur situr núna á prikinu sína alveg steinhissa á þessu öllu saman. Var alveg ruglaður þegar hann vaknaði og mundi ekkert hvar hann var. Heilsaði mér þegar ég bauð honum góðan daginn með litla gogghljóðinu sínu (hann er ekki tilbúin til að gefa meira af sér strax sko og ég skil það alveg) en situr núna bara á einu prikinu og andar voða hratt. Hann er samt svo duglegur! Ég dýrka hann.

Málið er að Rakel er hjá Robba svo við gátum gert þetta allt í ró og næði og leyft honum aðeins að venjast aðstæðum áður en skvettan kemur heim. Það er aðeins öðruvísi pabbakerfi hjá okkur núna þegar ég er í prófum og svona og í raun er mömmuhelgi. Það kom sér hins vegar mjög vel að hún væri að fara og þegar hún verður sótt á eftir fær hún bara að vita að það sé strákur sem heitir Pétur að bíða eftir henni. Annars er rauðhaus lasin og búin að vera síðan á laugardag svo hún er bara heima hjá pabba sín núna að knústast. Vonum bara að hún verði orðin frísk fyrir afmælið og svona.

Almáttugur. Ég er alltof tjilluð fyrir þessi próf. Er búin að glósa fyrir öll fögin en ekkert búin að lesa það yfir og fer í próf á miðvikudag. Ég hlýt samt að geta þetta. Gekk ágætlega í prófinu í málfræði III, vona að ég lækki ekki mikið í einkunn. Fékk 9 í málfræði I og 8 í málfræði II svo 7 í málfræði III liggur beint við en ég vona að ég verði aðeins hærri en það. Mér á að geta gengið vel í kvikmyndum og latinobókmenntum, prófin gilda 60% og 50% og ég er með mjög fínar einkunnir í því sem ég er búin með held ég. Svo eru það Straumarnir og stefnurnar. Ég hélt ég skildi þetta ágætlega en svo var ég að læra með Gyðu í gær og það er greinilegt að maður á að skilja þetta betur en ég geri. Sem ég geri ekki svo ég er örugglega fokkt þar. Vúhú!

Svo fæ ég allar bestustu heim um jólin. Hildur er komin, Katla kemur 19. des. og elsku Oddný kemur 29. des. Ég ætla að reyna að fá þær allar í mat ásamt Títu fínu milli jóla og nýárs. Jeij!

Heyriði. Ég vigtaði mig aftur og ég var eiginlega ekkert búin að þyngjast. Kannski um 200gr og kannski var það bara dagsformið. Í tilefni af því fór ég í kjól sem ég keypti í London og hef ekki farið í í meira en ár af því að hann sýnir spikið mitt svo vel. En hef fengið hrós eftir að fór í hann, frá ömmu sætu, sem vill nú hafa mann örmjóan en fannst ég samt flott, og mömmu og svona (en það er nátla ekkert að marka mömmurnar sem sjá ekki sólina fyrir frumburðum sínum). Og svo sagði Gyða að kjóllinn væri mjög flottur og ég labbaði um í honum á Háskólatorgi í gær. Fyrir framan fullt af fólki. Mig svimaði pínu af því að það var svo erfitt en ég gat það. Er ég ekki dugleg?

Á eftir að baka eina smákökusort. Ef Rakel verður veik á morgun held ég að ég reyni að vera með hana heima í stað Hrundar, allavega hálfan daginn, af því að Hrund er búin að vera svo mikið veik síðan hún byrjaði í nýju vinnunni. Ég verð bara að reyna að læra með lasarusinn heima eða eitthvað. Próf eru nú meira ruglið. Eins og maður geti bara sett lífið og fjölskylduna í frost af því að maður þarf að sanna að maður muni allt sem kennararnir gubbuðu út úr sér á önninni. Anywho. Aldrei að vita nema í skelli kökurnar með lasarusnum ef svo ber undir.

Ég tala eins og ég sé alltaf bakandi, yfir höfuð og um jólin. Nei, nei, nei. Mér finnst fátt leiðinlegra en að baka, alveg ömurlegt hreinlega og baka alltaf bara kurltoppa um jólin. En núna í kreppunni látum við heimabakað bakkelsi fylgja með jólagjöfunum svo ég varð að baka þrjár sortir til að hafa nægilegt magn og fjölbreytni.

Svo kom ég því loks í verk áðan að gerast heimsforeldri, munar ekki um þúsara hvort sem er og bara ekki hægt að lifa án þess að reyna að hjálpa náunganum. Ætla svo að kaupa geit eða hjálpa til við byggingu brunns eins og við Hrund gerum fyrir hver jól.

Jól. Þau eru bara alveg að koma og ég held ég hlakki pínu til. Get svo svarið það. 


Aðeins bara

Það er eitthvað að hjá mér bara. Var bara að læra íslensku í gær í stað spænsku. Gat bara ekki hugsað mér að draga fram málfræðidoðrantinn, strærðfræðibókina eins og Anton kallar hana, og byrja að berja þetta inn í hausinn á mér. Stupid. Núna hef ég bara daginn í dag og fyrir prófið á morgun til að stússast í þessu.

Loksins búin að fá einkunn fyrir öll fjögur verkefnin í íslensku sem ásamt mætingu í umræðutíma gefa 40%. Er með fína einkunn þar, núna er bara að massa þetta próf, það verður eins uppbyggt og verkefnin svo ef ég gleymi ekki öllum hugtökunum ætti ég að geta eitthvað.

Sprundin er búin í sínum prófum, kláraði í gær. Kennslan í kvöldskólanum er ekki upp á marga fiska svo hún er ekki viss um að ná öðru faginu. Það er alltaf gert ráð fyrir því að fólk hafi einhverja brjálaða reynslu og ef það hefur hana ekki á það bara skoða heimsíðuna hjá Byko og eitthvað krap. En hún reyndi þó.

Búið að plana hvar og hvenær Rakel verður um jólin. Robbi er að vinna svo mikið að hann tekur hana bara annaðhvort á jóladag eða annan í jólum og er með hana yfir nótt og svo er hann með hana á nýársdag. Ég bara svo lukkuleg með að þetta gekk allt vel og að allir eru sáttir.

Svo má Rakelitan setja skóinn út í gluggan í kvöld, ég veit ekki hvor er spenntari, barnið eða jólasveinninn.

Gleymdi að segja að þegar við keyptum jólatré skoðuðum við fugla og allt fyrir þá í Dýraríkinu. Fáum svaka fínt búr gefins og aukahluti með því svo við þurfum ekki að kaupa mjög mikið. Ætlum bara að renna við 17. des og kaupa allt og fara svo heim og fylgjast með Rakelinni tryllast. Vúhú. Við Hrund hlökkum ekkert smá til.

Hey, hver vill gera eitthvað skemmtilegt eftir prófið 19. des? Kaffihús? Santa María? Hlæja? Gyða og Kristín og allir hinir? Hlíf? Mig langar svo aðeins að pústa áður en ég fer heim að elda súpu ofan í billjón manns og gera allt fyrir afmælið. Hver vill vera memm?

Djöfuls veður var í gær. Ég náði í Rakel á leikskólann og ALLT dótið hennar var í poka og draup úr öllu, pollagallanum, stígvélunum ... Þar sem við vorum að fara að taka strætó áleiðis til mömmu þurfti hún bara að vera í flísbuxum, úlpu, í kuldaskóm og með regnhatt. Og sjitt hvað það rigndi. Við fórum út á Grensás og löbbuðum þaðan. Það tekur svona 15-20 mín. og við vorum ekkert mikið lengur þótt Rakelin sé stutt til hnésins.

Það rigndi eins og hellt væri úr fötu en hún valhoppaði og trallaði og lék apa með tilheyrandi óhljóðum alla leiðina. Við hentum af okkur blautu fötunum þegar við komum til mömmu, Rakel fór í bílaleik og ég eldaði fullan pott af gómsætri súpu. Var að æfa mig fyrir afmælið og prófaði að setja smá rjóma út í súpuna, þannig verður hún meira seðjandi, fólk borðar minna og það verður til næg súpa fyrir alla. Rakel skóflaði í sig fullum disk á nó time og borðaði þrjár sneiðar af snittubrauði með. Svo borðaði hún fjóra kanilsnúða í eftirrétt og drakk mörg glös af vatni. Hún svamlaði lengi í baði og að sögn Hrundar sem kom og náði í hana eftir prófið sitt sofnaði hún um leið og hún kom heim. Ég vakti krílið svo klukkan hálf níu í morgun. Alveg búin á því eftir gönguna litla krílið en hún kvartaði ekki einu sinni þótt hún væri blaut í gegn. Hún hélt bara með litlu hendinni sinni í mína og sýndi mér allt það stórmerkilega sem fyrir augu bar, bæði í strætó og á göngunni. Yndislegust.

VERÐ að fara að læra. Er að fara að hitta stelpurnar klukkan sex og verð að vera búin að renna yfir þetta þá. Hef reyndar alltaf lesið heima fyrir tímana svo þetta er enginn frumlestur. Djöfull er ég búin að mæta vel og læra mikið heima á þessari önn.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband